26.11.1942
Neðri deild: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

8. mál, vegalög

Flm. (Gísli Sveinsson):

Ég hef leyft mér að koma hér fram með frv. til I. á þskj. 8 um breyt. á vegal.

Þó að segja megi að vísu, að hér sé um nokkuð stórvægilegt atriði að ræða, þá má um fram komu þessa máls að vissu leyti líkja því við það, að verið sé að stinga hendi inn í mauraþúfu, því að hvenær sem fitjað er upp á slíku máli sem þessu, þá er uppi fótur og fit. Hver hyggst finna þörf hjá sér til þess að bæta þar einhverju við. Það skal alveg ósagt látið, hversu mikið af því, er fram hefur komið af því tæinu, hefur verið aðkallandi og nauðsynlegt, en hitt er vitað mál, að þörfin á auknu og bættu vegakerfi er mikil og skammt miðar í það horf, er þörf krefur.

Vegakerfi landsins hefur á síðustu árum breytzt töluvert að því leyti til, að þeir vegir, sem áður voru mikið til innanhéraðs vegir, eru nú komnir í tölu höfuðvega, og er það með eðlilegum hætti sökum vaxandi ferðalaga og flutninga um landið. En þessir vegir, sem þannig hafa orðið að höfuðvegum, eru þó eftir sem áður utan þjóðvegal. Það er því ekki nema eðlil., að þm. vilji fá þessu og öðru breytt í samræmi við eðlilega þróun og héraðsbúar ýti undir þá að koma þessum lagfæringum í framkvæmd.

Það hefur verið svo um þessi mál, vegamálin, hér á Alþingi, að nokkur reipdráttur hefur átt sér stað um þau milli þm., en í raun og veru ætti slíkt eigi að eiga sér stað, og svo vona ég, að verði með þetta frv., það fer eins og öll önnur skyld frv. í eina og sömu skúffuna, þ.e.a.s. til þeirrar n., er þetta mál heyrir undir, til samgmn. — Þar fær frv. sína athugun til að byrja með, — þar fær það sinn álitsdóm n. og þeirra dómbæru og sérfróðu manna, er n. kveður sér til aðstoðar frá því opinbera.

Við frv. þetta hafa komið brtt., er myndað hafa eins konar hala við það, og er sjálfsagt ekki fullséð enn, hversu hann verður stór. Við því segi ég ekkert. Mér þykir það einmitt líklegt, að brýn nauðsyn sé einnig fyrir hendi annars staðar en þar, sem um getur í frv. því, er ég er flm. að, og við því er auðvitað ekkert að segja.

Breyt. sú, er frv. þetta fer fram á að gerð verði á vegal., er sú, að þrír vegaspottar verði teknir í tölu þjóðvega. Um 1. og 2. lið frv. er það að segja, að öllum mun nú ljóst orðið, að bæði Álftaver og Meðalland eigi að komast í akbrautarsamband við Suðurlandsveginn, höfuðleiðina austur sýsluna, og af þeim framkv., sem undanfarið hafa verið ákvarðaðar, er það brýn nauðsyn, að þetta verði gert og óhjákvæmilegt að taka þá í þjóðvegatölu, enda meiri ástæða til að taka þá vegi frekar í þá tölu en þá vegi, er tengja saman einstakar sveitir. — Um 3. lið er og hið sama að segja, nema e.t.v., að hann gæti talizt öllu meira fyrir framtíðina. Allir þeir, sem til þekkja, vita, að þjóðvegur er að efsta bæ á Landi, og er því ekki nema eðlilegt, er austur kemur, taki og við greiðfær vegur, sem hið opinbera ætti líka að standa að og því einnig að vera í tölu þjóðvega.

Að svo komnu máli vil ég eigi hafa orð þessi fleiri, en vil leggja til, að máli þessu verði vísað til 2. umr. og samgmn.