26.11.1942
Neðri deild: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1175 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

8. mál, vegalög

Eysteinn Jónsson:

Ég á brtt. á þskj. 14 við frv. það, er hér um ræðir, þ.e.a.s. um breyt. á vegal. — En það er ekki ætlun mín á þessu stigi málsins að fara að ræða þessa brtt., heldur að viðhafa nokkur orð um þetta mál almennt, þar sem það kemur nú til kasta samgmn. að ræða málið og hafa það til meðferðar.

Ef við athugum vegal., hvernig þau eru byggð upp, þá komumst við ekki hjá því að verða varir við, að þar er um ósamræmi að ræða og skort á skipulagi. Það, sem skort hefur á, er að laga l. til eftir almennri þörf landsbúa, og miða við það framkvæmdir og breyt. vegal. En í stað þessa hefur vegamálum okkar miðað áfram aðallega fyrir atbeina duglegra þm., sem fyrst og fremst hafa verið að hugsa um þörfina í kjördæmi sínu. En vissulega er því ekki að leyna, að mikið hefur vegakerfið farið batnandi frá því, sem áður var.

Það er eitt í þessu sambandi, sem ástæða er til að drepa á, en það er tilhneiging sú, er fram kemur víða að gera sýsluvegi að þjóðvegum, en við það hefur einmitt borið á því, að það hafi orðið til þess að draga úr vegagerð, og hún hafi jafnvel horfið um skeið. Það er því nokkur ástæða fyrir því, að þetta sé athugað og hvað langt eigi að ganga í því að gera sýsluvegi að þjóðvegum og hvort ekki sé rétt, að tekin sé upp önnur stefna en verið hefur í þessum málum. Í þessu sambandi dettur mér í hug, hvort ekki væri hægt og gerlegt að hafa þá vegi, sem kynnu að vera mitt á milli þess að teljast þjóðvegir eða sýsluvegir, að hafa þá vegi í sérstökum flokki og láta ríkið leggja meira hlutfallslega til þeirra vega en venjulegra sýsluvega.

Þessu vil ég skjóta til samgmn., sem nú á að fara að leggja á ráðin, hvernig með þessi mál skuli farið, — skjóta því til hennar að hún gæti hins fyllsta samræmis í því, hvað skuli teljast þjóðvegir og hvað ekki, og sömu reglu sé gætt, þegar úr því á að skera, hvort þessi og þessi vegur skuli tekinn í tölu þjóðvega eða ekki. Þetta sem ég hefi nú sagt vildi ég að samgmn. hefði í huga, er hún tekur til starfa.