26.11.1942
Neðri deild: 5. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (2045)

8. mál, vegalög

Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. S.-M, hann hefur látið falla hér nokkur orð, er hann hefur beint til samgmn., og felst í þeim orðum bending um, að rétt væri að breyta um stefnu í vegamálum okkar frá því, sem verið hefur til þessa.

Ég finn ástæðu til þess, þar sem þessi skoðun kom fram hjá síðasta ræðum., þá vil ég, að fram komi hér rödd, sem fer í aðra átt og telur, að sú stefna sem fylgt hefur verið í þeim málum hafi verið rétt og í samræmi við eðlilega þróun.

Í þessu sambandi vil ég geta þess, að vegir, sem áður vöru miðaðir við þarfir einstakra sveita, hafa nú breytzt í það að verða alfaravegir, sem almenningur ferðast um, sem svo aftur stafar af útvíkkun á vegakerfinu og breyttum lifnaðarháttum t.d., ef bara er athugaður allur sá fólksstraumur og ferðalög, sem kaupstaðarbúar fara út um sveitir landsins. — Af þessu leiðir svo eðlilega það, að auka verður fjárframlög til vegamálanna. — Sú breyting, sem hefur orðið á samgöngum okkar Íslendinga, er því ekkert annað en eðlilegur grundvöllur og raunhæfur að þróun vegamálanna, að sýsluvegir og hreppsvegir hafa verið teknir í tölu þjóðvega.

Hv. þm. minntist á það, að þessi þróun væri óeðlileg og gagnstætt því sem hún ætti að vera og vildi benda á það því til sönnunar, að vegaframkvæmdir hafi víða fallið niður og úr þeim hafi dregið nokkuð upp á síðkastið. — En til þessa liggja aðrar og eðlilegar ástæður a.m.k. í ár. Að slíkt hefur átt sér stað, stafar af því, að það hefur ekki verið hægt að fá það vinnuafl, sem þurfti til að halda við vegalagningu svo sem skyldi. — Atvinnuástandið í tvö undanfarin ár, hefur verið orsök þessa, sem hv. þm. S.-M. vildi kenna þeirri stefnu um, er höfð hefur verið í þessum málum. — Frá þeirri stefnu á hvergi að hvika.

Ég vildi hér aðeins láta þessa skoðun koma fram til varnaðar og ábendingar. — Þótt mikið hafi unnizt í þessum málum okkar, þá er öllum ljóst, að mikið er enn óunnið. En það verðum við um fram allt að hafa hugfast, að ekkert má gera, er staðið getur í veginum fyrir þessu nauðsynlega og aðkallandi framtíðarmáli þjóðarinnar.