27.11.1942
Neðri deild: 6. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

8. mál, vegalög

Eysteinn Jónsson:

Það voru aðeins örfá orð. Mér fannst það hálfgert á hv. þm. Borgf. (PO), að hann misskilja a.m.k. að nokkru leyti það, sem ég sagði um þetta mál. Það var ekki ætlun mín að halda því fram, að sú þróun, sem orðið hefur, að taka fleiri vegi en áður inn á vegalög, væri óeðlileg. Ég veit, að allir þm. eru sammála um, að eðlilegt sé að taka inn á vegalög fleiri vegi en áður, ef miðað er við nokkur ár. Hinu vildi ég vekja athygli hv. samgmn. þessarar d. á, að hún athugaði, hvaða stefnu hún vildi taka í þessum málum að því er framtíðina snertir, sérstaklega hvort eðlilegt sé að taka nærri alla vegi í landinu, sem hugsanlegt er að verði lagðir í náinni framtíð, í þjóðvegatölu eða ekki. Það er ekki hægt að fara hér út í einstakar brtt., en þær till., sem komið hafa fram, bera það með sér, að menn lita misjöfnum augum á þessi mál. Sumir vilja ekki taka í þjóðvegatölu nema lítinn hluta vega, en aðrir ganga miklu lengra og taka vegi, sem ekki hafa þýðingu nema fyrir sveitina, sem þeir liggja um, og liggur þá ef til vill annar þjóðvegur um þá sömu sveit. Ég er ekki að segja, að það geti ekki verið réttmætt að taka slíka vegi í þjóðvegatölu, en ég vildi, að hv. samgmn. gerði sér grein fyrir þessu máli nú þegar. Ef farið er inn á þá braut að taka nærri alla sýsluvegi inn í þjóðvegatölu, þá koma fleiri brtt. til greina, og ég segi fyrir mitt leyti, að ég hef ekki flutt þær till., sem ég mundi flytja, ef sú leið yrði farin. Ég vil benda hv. samgmn. á það, að það er til önnur leið: Hún er sú, að styrkja sýsluvegina meir en áður með því beinlínis að leggja meira fé til þeirra, og einnig mætti gera það á þann hátt að hærri styrkur yrði veittur hlutfallslega á hvern einstakan veg en áður hefur verið gert. Mér finnst mjög koma til athugunar, hvort ekki á að fara inn á þá leið með ýmsa af þeim vegum, sem menn vilja koma í þjóðvegatölu.

Þetta er það, sem ég vildi benda hv. samgmn. á, en mér hefur aldrei dottið í hug að undrasi það, að fleiri vegir hafa verið teknir í þjóðvegatölu en áður. Aðeins þetta, hvort það á að stefna að því, að sem flestir sýsluvegir komist í þjóðvegatölu eða hvort sýsluvegirnir skuli styrktir meira en gert hefur verið.

Þetta er óhjákvæmilegt, að þingið geri upp við sig, og umfram allt verður það að fá reglu til að starfa eftir, svo þetta fari ekki eftir því, hve ýtnir menn eru að ota sínum tota.