09.03.1943
Neðri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

8. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Ég harma það, að n. sá sér ekki fært að taka upp þá aðgreiningu á þjóðvegunum, sem ég tel eðlilega og sjálfsagða og ég hef minnzt á áður, og sérstaklega í Ed., þegar breyt. á vegal. lá fyrir þar 1940, heldur hafa alla þjóðvegi í sama númeri og stefna yfirleitt að því að gera alla vegi í landinu að þjóðvegum. En hinn fjárhagslegi þungi af vegunum ætti að hvíla á ríkissj. eftir því, hve mikið þeir eru gerðir fyrir einstök héruð. Ég flyt á þskj. 24 brtt. við vegal. N. hefur ekki tekið hana upp. Síðan hef ég gert brtt. á þskj. 471 við brtt. n. Og þó að ég vilji allt fyrir samgmn. gera, þá sé ég mér ekki fært að taka þær aftur, og það því fremur sem þær tvímælalaust standa framar en ýmsar af þeim brtt., sem upp eru teknar, að því er þörfina snertir. En eftir því verður að fara á þeirri hálu braut, sem við erum á. Það verður að taka upp mat á nauðsyn þeirra vega er gera á að landssjóðsvegum.

Brtt. á þskj. 471 fer fram á að gera þjóðveg fram Jökuldal.

Þessi hreppur, sem um er að ræða, Jökuldalshreppur, er einn af þeim hreppum, sem nær yfir einna mest víðlendi hér á landi. Það er byggð beggja megin árinnar, sem er ófær alla tíma árs, nema annaðhvort á brú eða í kláfum dráttum — og þeir eru 5 yfir ána og skilur hún þess vegna sveitina algerlega í sundur og gerir alla aðstöðu ákaflega erfiða innan hrepps. Það skal viðurkennt, að við það, að vegur var gerður eftir fjöllunum á bak við dalinn og niður að fremsta bænum að vestanverðu, þá skánaði ástandið dálítið. Fremstu bæirnir gátu náð um hásumarið eftir þessum fjallvegi, og munar það nokkru um aðdrætti fyrir þá, sem fluttu allt á klökkum.

Nú er það ósk manna þarna, að vegurinn annars vegar við þessa á, sem er ófær allt árið, komi í þjóðvega tölu, en hinn vegurinn verði áfram á sýslunni og hreppnum. Eftir upplýsingum frá vegamálastjóra ætla ég, að vegurinn hafi verið hugsaður frá vegamótum við Gilsá og fram dalinn að Brú. Nú á að halda við sýsluvegi annars vegar í dalnum, sem er 80–90 km, og ætla ég að það sé nóg vegalengd, þó að ríkið leggi veginn annars vegar. Í Skorradal og Lundarreykjadal, og reyndar hvar sem við förum, finnum við alls staðar kominn þjóðveg eftir endilöngum dalnum. Hvers eiga menn þá að gjalda hér? Vegamálastjóri segir, að vegur þessi sé dýr og liggi um erfitt land. En það væri skrítin röksemdafærsla, ef ríkið ætti að afsegja að taka að sér veg af þeirri ástæðu og láta hrepp og sýslu standa undir kostnaðinum þar, sem dýrast er að leggja. Ég legg þess vegna mikla áherzlu á að fá þennan veg. hann er fullkomlega réttmætur samanborið við aðra. Hann er sjálfsagður með tilliti til þarfarinnar heima fyrir, og tel ég hreppsbúa beitta rangindum, ef þeir fá ekki þennan veg tekinn upp í þjóðvegatölu. Um veginn frá Seyðisfjarðarkaupstað og til Þórarinsstaðaeyrar er ekki hægt að segja, að gegni sama máli yfirleitt. Hann á rétt á sér á sama hátt og þjóðvegir, sem tengja þorp, hérað eða kaupstaði við aðalvegi. Hann hefur minni þýðingu en hinn að því leyti, að þarna eru tíðar samgöngur á sjó, svo að nauðsynin er ekki nærri eins brýn, þó að það sé ósk manna að fá bílfært að þorpinu, og vegurinn verði notaður talsvert, þegar hann er kominn.