17.03.1943
Neðri deild: 77. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1188 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

8. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Ég vil þakka hv. samgmn. fyrir það, að þau orð, sem ég hafði við fyrri umr., að svo lengi lærir sem lifir, hafa sannazt á henni, og hún hefur séð að sér. Ég mun þess vegna taka aftur till. Ég vil gjarnan sýna, að ég met viðleitni hennar til að ná samkomulagi, og tek aftur hina till. mína um Seyðisfjarðarveg. Ég vil sízt af öllu vera að mæla á móti öðrum till., en ekki verður komizt hjá að benda á, að með því að taka upp till. um Hrísaveg, er kominn hringvegur, beggja megin við ána og yfir ána fremst í dalnum. Er það gott til eftirbreytni, þegar þarf að gæta hagsmuna annarra dala um að fá þjóðveg hringinn í kring í dalnum.