23.03.1943
Efri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1193 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

8. mál, vegalög

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Þegar frv. til l. um brúagerðir var hér á ferð fyrir skömmu í þessari hv. d., þá fékk ég ávitur fyrir það, að ég hafði ekki borið fram brtt. mínar við það frv. fyrr en við 3. umr. málsins, og skýrði ég þó frá því við umr., að ég hefði verið veikur, þegar 2. umr. fór fram. Ég býst við, að ég fái ekki sams konar ávítur nú, því að þegar sams konar mál og þetta var lagt fyrir þessa hv. 1. snemma á þessu þingi, alllöngu fyrir áramót, þá bar ég fram þrjár brtt. við það frv., sem eru prentaðar á þskj. 36, og á þingskjalsnúmerinu geta menn séð, að það var allsnemma á þinginu, sem ég bar þær brtt. fram. Síðan var sá háttur upp tekinn um það mál, svo sem kunnugt er, að frv. það, sem lagt var þá fyrir þessa hv. d., var dregið til baka, en sams konar frv., sem lá fyrir hv. Nd., var lagt til grundvallar, og samvinnun. samgöngumála beggja d. fjallaði um það, og liggur það nú hér fyrir að mestu leyti eins og sú n. vildi vera láta.

Ég skal taka það fram og tjá þakkir mínar fyrir, að tvær af þremur brtt., sem ég upphaflega bar fram til breyt. á vegal., hafa nú verið teknar upp af þm. Nd. og með ráði samvinnun. samgöngumála þingsins, og skal ég því fyllilega játa, að ég er sæmilega ánægður með frv., eins og það nú liggur fyrir, og mun ekki sækja af neinu sérstöku kappi að fá brtt. þá samþykkta, sem ég hef borið fram á þskj. 581, þar sem ég verð að játa, að ég hef við meðferð þessa máls mætt sanngirni. En ástæðan til þess, að ég ber þó þá brtt. fram, er sú, að allar þessar þrjár brtt. mínar, sem ég bar fram á þskj. 36, eru alveg hliðstæðar, svo að ég sé nú ekki, fljótt á litið, að ein þeirra eigi að vera réttminni heldur en önnur. Ég ætla ekki að fara að kenna hv. þdm. landafræði, en ég veit, að þeir eru allir svo fróðir, að þeim er það kunnugt, að í Eyjafjarðarsýslu eru þrjú aðalhéruð, sem eru Eyjafjörður, þ.e.a.s. Eyjafjarðardalur inn frá Akureyri, Hörgárdalur og Svarfaðardalur. Þessar till. mínar, sem ég bar fram í upphafi á þskj. 36, hnigu að því, að tekinn væri upp í þjóðvegatölu vegur í öllum þessum aðalbyggðum þeim megin ár, sem þjóðvegur er ekki nú, og þessir vegir tengdir yfir brýr, þannig að í þessum dalabyggðum í Eyjafjarðarsýslu kæmu eins konar hringvegir, sem væru í þjóðvegatölu. Nú mun það hafa verið haft á móti þessu á vissu stigi málsins, að það væri ekki venja að taka upp í þjóðvegatölu vegi beggja megin ár í dölum, heldur látið nægja, að einn þjóðvegur lægi um dalinn. En út frá þessari reglu hefur nú verið margsinnis vikið. Ég skal aðeins minna á Skagafjörð. Það er þjóðvegur frá Varmahlíð og út á Sauðárkrók, og hinum megin Héraðsvatna er þjóðvegur, sem heitir yzt Blönduhlíðarvegur, og þannig er viðar. Enda hefur beinlínis í þessu frv. verið víkið frá þessu, þar sem bæði Laugalandsvegur, sem samkv. till. minni hefur verið lengdur og tengdur veginum austan Eyjafjarðarár, og enn fremur er komið inn í frv. að taka upp veg austan Svarfaðardalsár. Þessi brtt. mín á þskj. 581 er nú um það að taka í þjóðvegatölu veginn vestan Hörgár um Hörgárdal frá Möðruvöllum og inn á þjóðveginn, sem nú er ákveðinn af aðalpóstleiðinni og yfir á sýsluveginn, sem nú er um Hörgárdalinn, þ.e. fram að þeim vegamótum. Þetta er alveg hliðstætt hinu, sem samþ. hefur verið, og þar af leiðandi sjálfu sér samkvæmt að samþykkja þetta einnig. En eins og ég sagði í upphafi, þá mun ég þó, þar sem ég hef mætt sanngirni í tveim þriðju hlutum till. minna, sætta mig við það, þó að ekki fáist allar brtt. minar samþykktar, og því ekki sækja það með ofurkappi að fá þetta fram, þó að ég vilji undirstrika, að þessi vegur, sem ég fer fram á í brtt. á þskj. 581 að verði tekinn í þjóðvegatölu, er algerlega hliðstæður hinum vegunum, sem teknir hafa verið upp í þjóðvegatölu eftir till. mínum, þannig að ég sé þar ekki nokkurn mun á.

Að því er snertir tilmæli hv. þm. Barð. um það að taka brtt. allar aftur til 3. umr., svo að n. geti fengið þær til athugunar, þá skal ég fyrir mitt leyti gjarnan verða við þeim tilmælum og tek þá brtt. mína aftur til 3. umr. nú, en vonast þá eftir, að hún komi til atkv. þá, án þess að ég þurfi að bera hana fram á ný.