23.03.1943
Efri deild: 79. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (2086)

8. mál, vegalög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vildi aðeins segja örfá orð út af brtt. þeirri, sem ég hef borið fram á þskj. 585. Ég verð að segja það, að ég er ekki sá lukkunnar pamfíll, eins og sá hv. þm., sem síðast talaði, þar sem hann hefur fengið hluta óska sinna í sambandi við þetta mál uppfyllta. Ég hef ekki fengið helming af þeim óskum, sem ég bar fram í þessu máli, uppfylltan, og tel ég þó, að ég hafi ekki verið frekur í kröfum um þau mál. Ég hef fengið hér einn vegarspotta tekinn upp hjá hv. samvinnun. samgöngumála, sem er samtenging á milli vega. En það var einmitt sú brtt., sem ég óskaði, að yrði heldur látin biða, en hin tekin frekar, sem ég hef ekki fengið samþykkta. Ég get ekki gert mig ánægðan með þessi úrslit, en hitt er það, að ég býst við, að það séu alls ekki komin nein lokaúrslit í þessu máli. Samvinnun. samgöngumála athugaði þetta mál, þegar kröfur voru komnar fram frá hv. Nd.-þm. í málinu og lagði til ýmsar brtt. um að taka upp óskir manna, sem henni fundust sanngjarnar vera. En þá komust ekki að óskir okkar þm. Ed., sem erum fyrir einmenningskjördæmin. Og ég hef sérstaklega von um, að brtt. mín verði tekin til greina, þar sem ég sé, að í þessari aukamiðlun samvinnun. samgöngumála hefur n. mælt með einum vegi, sem líklega er um 50 km alls, og a.m.k. 20–25 síðustu km þess vegar eru aðeins til nota fyrir 5 bæi.

Þessi vegur er aðeins fyrir 5 bæi, og af þeim mun nú einn nær kominn í eyði. Ef borin er nú saman þessi till., er náði fram að ganga, og till. mín um ca. 15 km. langan veg eftir þéttbýlum dal (líklega 14 bæir neðanvert en 10 í efri hlutanum) þá virðist till. mín svo sjálfsögð, að allir hv. þm. hljóti að viðurkenna hana sem sanngirnismál.

Einkum treysti ég þeim flokki til fylgis við þetta mál, sem stendur að Tímanum, því að í því blaði birtist kjallaragrein í vetur um samgöngur í Dalasýslu og var þar látið illa yfir vegleysum í sýslunni og lofað bótum þar á. Eins treysti ég hér á alla sanngjarna menn í þessu máli, og ég verð að segja það, að ég hyggst ekki munu fara bónleiður til búðar hjá þeim, er hér eiga hlut að máli. Árið 1932, er vegalögum var breytt, þá fengust nýir vegir í nær allar sýslur nema Dalasýslu. Það virðist eins og hv. þáverandi þm. sýslunnar, núverandi útvarpsstjóri, hafi alveg gleymt sýslunni, en hinar 4 nágrannasýslur hennar fengu þá 2 eða fleiri nýja vegi. En nú er þetta frv. komið frá hv. Nd., en þessi sýsla fær ennþá ekki nema þennan eina spotta.

Þegar hv. samgmn. hefur athugað alla þessa málavexti, þá hlýtur hún að skoða brtt. mína sem sjálfsagða sanngirni. Og að svo stöddu, þar til ég heyri frá n., tek ég brtt. mína aftur til 3. umr. á meðan hún er til athugunar.