25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (2093)

8. mál, vegalög

Eiríkur Einarsson:

Forseti. Ég var áður búinn að segja fáein orð í samb. við till. þá, sem ég flyt á þskj. 603. Ég vil aðeins bæta því við, að af skiljanlegum ástæðum var nokkur áherzla lögð á það, að kaflinn „nýir vegir“ væri ekki felldur inn í frv. Ef það á annað borð álízt, að um þarfar vegagerðir sé að ræða, þá álít ég, að enginn skaði sé skeður, þó að vegakafli, sem verður réttlættur á annan hátt, sé felldur inn í þjóðvegakerfið. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að vegagerð yfirleitt ætti að vera á vegum ríkisins. Þetta, að koma með till. um vegi hér og vegi þar og láta svo teningskast ráða um það, hverjir eru teknir upp og hverjum úthýst, þó að þeir eigi jafnan rétt á sér vegna almenningsþarfa, er nokkuð, sem verður að leggjast niður. En það verður ekki gert á annan hátt en að vegakerfið verði þjóðnýtt í orðsins fyllstu merkingu. Hitt er annað mál, hve ríkið er mikils umkomið að kosta vegakerfið með svo mikilli þenslu, sem á því er. Þá er spurningin hve ört megi hraða framkvæmdum og hve einstök héruð eru mikils um komin að koma á móti ríkinu um framlag. Af þessum ástæðum tel ég einungis rétt, að till. um nýja vegi séu felldar inn í þjóðvegakerfið og ekki sé verið með því að stíga neitt glæfraspor. Hitt er í rauninni fordildarmál, hvað ýmsar þdn. segja — þó að þær segi: „Verið ekki að fara inn á okkar störf. Við erum búnir að segja annað: En d. eiga úrskurðinn, en ekki n., þó að þær vilji e.t.v. taka tillit til þessarar skoðunar, en það er ekki sjálfsagt, þó að n. leggi það til.

Til þess að snúa mér að till. þeirri, sem ég á hér á þskj. 603, þá mætti hún fá samþ. fyrir þær sakir, að hún þolir vel samanburð við það, sem hér hefur verið haldið uppi um vegagerðir, í fyrri ræðum. Þetta er vegafrekt og fjölmennt hérað, ef ég ætti að nefna bæjatöluna í samanburði við vegalengdina, þó þolir það allan samanburð. Þar er fjöldi bæja með daglegar samgönguþarfir. Svo það er óhætt samvizkunnar vegna að samþykkja þessa till. Skal ég svo ekki eyða fleiri orðum að þessu.