25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1198 í B-deild Alþingistíðinda. (2094)

8. mál, vegalög

Ingvar Pálmason:

Vegamál okkar Íslendinga hafa nú um nokkurt skeið verið bundin í kerfi, sem allir hv. þdm. kannast við. Það er þannig, að það er í fjórum flokkum.

1. Þjóðvegir, kostaðir af ríkinu.

2. Sýsluvegir, kostaðir af sýslufélögum að nokkru leyti, en að nokkru leyti af fé úr ríkissjóði.

3. Hreppavegir, kostaðir eingöngu af hreppunum.

4. fjallvegir, kostaðir af ríkinu.

Þessi skipun hefur gilt um mörg ár og gefizt vel. Má telja, að vegagerðir hér á landi hafi gengið örara en vonir stóðu til, en það álit ég, að stafi af því, að skipting veganna var frá upphafi með skynsamlegum hætti.

Því er ekki að neita, að um langt skeið hefur verið tilhneiging til að koma sem mestu af vegakerfi landsins á ríkissjóð beint. Má vera að það verði svo að lokum, að allar vegagerðir og viðhald vega verði kostað af ríkinu, en ég fullyrði, að það er ekki rétta leiðin til að vegalagningin gangi sem greiðast. Eitt sinn voru sýsluvegir einvörðungu kostaðir af sýslusjóði. En svo var hlaupið undir bagga af ríkinu, og nú er árlegt framl. til þeirra hluta í fjárl. Þetta hefur gefizt mjög vel. Með þetta fyrir augum leit samvinnun. samgöngumála svo á, að ekki mundi það greiða fyrir vegamálum landsmanna að taka hvern veginn af öðrum og gera að þjóðvegi, hvernig sem á stendur. Því að þar með er öllum skyldum í þeim efnum létt af sýslusjóðum, og enda þótt slíkt geti gengið með tímanum, þá á þó að sporna við því, að of mikill hraði komist á þau mál, því að slíkt getur haft illt í för með sér. Ég veit ekki, hvort hv. dm. hafa gert sér þetta ljóst, en það ættu þeir að gera, áður en það er um seinan. Ég er óhræddur um það, að samvinnun. samgöngumála hefur valið rétta leið, en ef Alþingi vill fara hraðar í þessu, þá verður því að hlíta. en sannfæring mín er sú, að sú stefna sé ekki til þess að flýta fyrir vegalagningu hér á landi. Ég vil í þessu sambandi benda á ummæli hv. þm. Barð., að ef breyt. eru gerðar frá því, sem er, þá getur ekki nema eitt af tvennu átt sér stað, annaðhvort verður frv. þetta ekki samþ. eða það fer út í hinar mestu ógöngur, og hvort tveggja er þvert á móti því, sem vakti fyrir samvinnun. samgöngmnála, og kapphlaupið milli hv. þm. um þessa vegi stefnir ekki í rétta átt. Samvinnun. samgöngumála kaus undirn. til þess að ræða við vegamálastjóra, og án þess að ég sé að hæla þeirri n., þá get ég sagt það, að mikil vinna var lögð í þetta, og hvergi er hægt að dæma betur um þessi mál en í skrifstofu vegamálastjóra, sem rannsakar þessi mál ýtarlega.

Um brtt. þær, sem fyrir liggja, skal ég ekki segja eitt einasta orð. Ég efa ekki, að ýmsar eigi þær rétt á sér, en brýna nauðsyn virðist mér ekki vera hægt að leggja til grundvallar þeim. Ég mun hiklaust greiða atkvæði gegn þeim öllum, ekki þó af því, að þær eigi ekki rétt á sér, heldur af því að ég vil, að þetta sé nú stöðvað að sinni.

Ég vil gera lítils háttar að umræðuefni ummæli hv. þm. Dal., sem mér komu alleinkennilega fyrir sjónir, og þessi hv. þm. virðist hafa ruglazt í landafræðinni. Hann sagði, að ég hafi komið inn í fjárl. nú 68 km löngum vegi, en það er ekki rétt. Ég vildi aðeins leiðrétta þessi einkennilegu ummæli þessa hv. þm., sem, að því er mér virðist, geta ekki stafað af öðru en misskilningi. Ég get svo látið útrætt um þetta að sinni, en vona, að hv. d. geri það upp við sig, hvort hún vill láta hér staðar numið eða halda áfram að breyta frv.