25.03.1943
Efri deild: 81. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (2097)

8. mál, vegalög

Ingvar Pálmason:

Ég vil svara hv. þm. Dal. Þannig er háttað með þessa vegi, sem hann minntist á, að þeir hafa verið á vegalögum síðan 1933. Ég var þá flm. að þessum vegaspotta milli Eskifjarðar og Norðfjarðar, en vildi að vegamálastjóri ákvæði hvar hann skyldi liggja. Nú hefur hann gert það, og í frv. stendur því núna, að hann skuli liggja frá Eskifirði um Oddsskarð til Norðfjarðar. En þessi vegur er ekki nýr þjóðvegur, þó að þarna sé aðeins slegið föstu, hvar hann skuli liggja. Hann hefur verið á vegalögum síðan 1933.

E.t.v. hefur hv. þm. Dal. ekki athugað þetta, eða hann er að reyna að notfæra sér þetta til framdráttar till. sinni, en það tel ég ekki sæma honum.