23.02.1943
Neðri deild: 63. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1205 í B-deild Alþingistíðinda. (2110)

136. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Enda þótt ýtarlega sé gerð grein fyrir frv. þessu í grg., er því fylgir, þá mun ég samt í örstuttu máli skýra frá því helzta, sem frv. fer fram á. Till. eru þess efnis að breyta vélasjóði, sem ræðir um í V. kafla jarðræktarlaga, nr. 54 4. júlí 1942. Breyt., sem farið er fram á, eru tvær. Önnur er sú, að framlag til sjóðsins verði aukið úr 25 þús. í 50 þús. kr. Þetta er gert með hliðsjón af breyt. á fyrirkomulagi á störfum sjóðsins og auknu verkefni hans. Það er að vísu ekki alls kostar rétt að segja, að verkefni hans sé aukið, því að frv. leggur til, að annað af verkefnum sjóðsins verði lagt niður, en hitt aukið að miklum mun, eins og ég mun síðar drepa á. Starfsemi sjóðsins er í núgildandi l. ákveðin þannig. að 2/3 hlutar stofnfjár sjóðsins sé ætlað til lána fyrir þá menn, sem kaupa landbúnaðarvinnuvélar. Það þótti eðlilegra, að þessi lánastarfsemi yrði tekin út úr sjóðnum og flutt undir Búnaðarbankann, því að það er alls ekki ætlazt til, að hún falli niður. Í þessu sambandi skal ég geta þess, að við vonum, að samkomulag geti náðst við Búnaðarbankann um þetta atriði.

1/3 hluti af stofnfé sjóðsins er í núgildandi l. ætlaður til vélakaupa vegna tilrauna með vélknúnar jarðræktarvélar og skurðgröfur. Þessi atarfsemi hefur ekki þótt fullnægjandi, og þess vegna fer frv. fram á, að vélasjóður helgi starfsemi sína eingöngu þessu starfi.

Í bréfi, dagsettu 24. sept. 1942, felur atvmrh. verkfæranefnd að semja nýjar reglur um notkun skurðgrafna þeirra, er ríkið nú á. N. hélt fundi um þetta mál og komst að raun um, að reglur þessar þyrftu að mótast með hliðsjón af núgildandi l. varðandi jarðræktarframkvæmdir. En við athugun á þessari löggjöf kom í ljós, að breyt. á henni væru nauðsynlegar til þess að tilgangur næðist. Verkfæranefnd samdi þess vegna frv. þetta og sendi það landbn. Nd. Alþ.

Þetta, sem ég hef rakið, eru þær aðalbreyt., er frv. felur í sér. Landbn. fékk málið til meðferðar og hefur flutt það næstum því orðrétt eins og það kom frá verkfæranefnd. Þó hefur landbn. gert smábreyt., sem ég hirði ekki um að rekja, en mun aðeins skýra frá einni. Hún er sú, að í frv. nú er gert ráð fyrir, að Búnaðarfélag Íslands hafi meiri íhlutun um störf sjóðsins en verkfæranefnd gerði ráð fyrir. Þetta er aðalbreyt. á till. verkfæranefndar.

Allir landbnm. voru sammála um frv., og vænti ég, að það fái greiða afgreiðslu gegnum Alþ. Á því leikur enginn vafi, að þessi styrkur úr ríkissjóði til landbúnaðarins er sá styrkur, sem minnstum ágreiningi veldur, enda ríður mikið á, að allar ræktunaraðferðir séu í sem beztu lagi. Það gæti e.t.v. orðið til þess, að ýmsir styrkir til landbúnaðarins, sem ágreiningi valda, geti niður fallið.

Ég legg svo til, að frv. verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. Ég tel ekki ástæðu til, að það fari til n., þar eð það kemur beint þaðan.