23.02.1943
Neðri deild: 63. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1206 í B-deild Alþingistíðinda. (2113)

136. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. — Út af ummælum hv. 2. þm. N.-M. er það að segja, að það er að vísu rétt hjá honum, að verksvið vélasjóðs takmarkast frá því, sem áður var, þar eð honum er samkv. þessu frv. ætlað eitt hlutverk í stað tveggja áður. Út af þeim ummælum þessa hv. þm., ef þetta annað hlutverk vélasjóðs verður flutt undir Búnaðarbankann, þá muni þurfa að breyta l. bankans, þá tel ég eigi þörf á breyt. á þeim l., en aðeins að komast að samkomulagi við b1tnkann, og því gerðum við ráð fyrir.

Út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um 5. gr. frv., þá skal ég geta þess, að þegar þetta kom frá verkfæranefnd, þá var greinin öðruvísi orðuð. Þá stóð ekki aðeins, að ríkisstj. skyldi heimilt að leggja fram það fé, sem á vantaði til þess að kaupa tilgreindar vélar, heldur, að ríkisstj. skyldi leggja fram fé til kaupanna. Þessu breytti landbn., svo að nú er aðeins um heimild að ræða, þar sem áður var bein skylda. Ég tel, að hér sé um svo merkilegt mál að ræða, að eigi sé rétt að binda hendur ríkisstj. um þetta atriði, og þetta voru allir nm. sammála um og létu þessa heimild þess vegna standa í gr. Þó að ríkulegt fé hafi verið veitt í fjárl. þessa árs til þessara framkvæmda, þá þarf e.t.v. oftar að veita fé í þessu skyni, og l. eru sett fyrir fleiri en eitt ár, og til þessara framkvæmda þarf einnig fé árin 1944 og 1945 eins og 1943.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en vona, að hv. dm. fallist á frv. eins og það er.