17.03.1943
Efri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1214 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Þetta frv. er flutt af 8 þm. í Nd. samkv. ósk Bandalags íslenzkra listamanna og ályktunum listamannaþingsins 1942 í því skyni að bæta til bráðabirgða ár þeim ágöllum höfundalaganna, sem bersýnilegastir eru og ekki verður lengur við unað. Rithöfundal. eru mjög gömul, eða frá 1905, og ýmislegt hefur gerbreytzt á þessum tíma, og má svo að orði kveða, að hér á Íslandi séu höfundar réttlausir með öllu, jafnvel hér í sínu eigin landi, um eignarrétt á verkum sínum. Þetta hefur orðið sérstaklega ljóst síðan útvarpið kom til sögunnar, því að í gömlu l. var gert ráð fyrir því, og þess vegna eru engin ákvæði um rithöfundarétt hvað viðvíkur flutningi í útvarpinu. Margt hefur breytzt frá þessum tíma, gömlu l. eru því mjög ófullkomin, og því er þetta frv. flutt til þess að koma í veg fyrir verstu annmarkana, sem eru á l. og tryggja rithöfundum og öðrum listamönnum þó nokkurn rétt yfir verkum sínum. Það er hægt að taka það fram strax, að í þessu frv. er gengið svo skammt, að í flestum öðrum löndum hafa listamennirnir meiri rétt en hér er gert ráð fyrir. Menntmn. Nd. hafði frv. til athugunar og var á einu máli um að leggja til, að það væri samþ. óbreytt. Það var og samþ. einróma í Nd. Menntmn. þessarar d. hefur athugað frv., og verð ég að segja, að hún hefur ekki verið mikilvirk í þessu efni frekar en öðrum. N. hefur ekki getað orðið á einu máli um afgreiðslu málsins. Einn nm. lagði á móti frv. og fann því ýmislegt til foráttu, en meiri hl. var sammála um að mæla með því. Þó hafa síðan komið fram brtt. við frv. frá báðum nm. Í rauninni var ástæðulaust, að mínu áliti, að koma fram með nokkra brtt. við frv. eins og það er nú, vegna þess, hve skammt það gengur, og í öðru lagi er gert ráð fyrir, að þetta standi aðeins til bráðabirgða, og hefur verið samþykkt í Sþ. till. um endurskoðun á rithöfundal. yfirleitt, en af því að það má gera ráð fyrir, að þetta taki nokkurn tíma, hafa þeir, sem að málinu stóðu, viljað tryggja listamönnum nokkur n rétt strax. Það koma fram í áliti minni hl. nokkrar aðfinnslur við frv., en ég held, að þær aðfinnslur séu aðallega tvenns konar, og eingöngu sprottnar af fljótfærni og þess vegna gersamlega staðlausar.

Önnur aðfinnslan er viðvíkjandi því, að hér komi fram óvenjulegur skilningur á rithöfundarétti, þar sem listamönnum er tryggður réttur yfir verkum sínum í ákvæðum laganna að öllu leyti að því er við kemur sýningum á þeim, þó að þau séu í einstaklings eign, þ.e. að einstaklingur, þótt hann eigi málverk myndlistamanna, megi ekki leyfa, að þau séu sett á sýningu nema þá á söfn. Við þetta er ekkert að athuga. Menn, sem eiga listaverk, sækjast yfirleitt ekki eftir að láta þau á sýningar, og þarf oftast að ganga á eftir þeim til þess, og í öðru lagi er ekki nema sjálfsagt, að listamaðurinn geti ráðið því, hvort verk hans eru sett á sýningu eða ekki. Þetta ákvæði er ekki mikilsvert og er sett til varúðar og í samræmi við rithöfundal. erlendis. Önnur aðfinnslan er viðvíkjandi flutningi á lögum og tónverkum. Minni hl. segir í áliti sínu: „Hér á að lögfesta það, að í hvert skipti, sem sungin er vísa eða leikið lag eftir íslenzka menn, og sé ekki liðin hálf öld frá dauða þeirra, þá geti skáldið eða erfingjar þess gert fjárkröfur á hendur þeim, er stendur að söngskemmtuninni.“ Þessi skilningur á frv. er alger fjarstæða. Það er skýrt tekið fram og ætlazt til þess í 3. gr., að settar verði ákveðnar reglur fyrir flutningsrétti á ritverkum og tónsmíðum, og einmitt tekið fram, að l. komi ekki í gildi fyrr en þessar reglur hafa verið settar, og þetta er gert til þess að koma í veg fyrir, að þessi lagasetning geti haft nokkra óvissu í för með sér. En í 2. gr. stendur: „Nú hefur stéttarfélag eða stéttarsamband höfunda fengið almenna aðild um flutningsrétt á ritverkum og tónsmíðum og reglur verið settar um það efni, og skal þá heimilt, án sérstaks leyfis hverju sinni, að lesa upp og flytja í útvarp einstök kvæði, smásögur. ritgerðir eða kafla úr ritum, svo syngja eða leika einstök lög eða tónverk, sem út hafa verið gefin, eða kafla úr þeim.“ Það er því mesti misskilningur að ætla, að í hvert einasta skipti þurfi að leita leyfis um flutning á kvæði, sögu eða tónsmíð. Það er ætlazt til, að settar verði reglur um það og síðan skipt laununum fyrir verkin, ef þau falla undir ákvæðin.

Enn fremur hefur síðan nál. var gefið út komið kvörtun frá Sambandi íslenzkra karlakóra, sem felur í sér eins konar mótmæli gegn því, að frv. verði samþ. óbreytt, og telur sambandið, að frv. skapi hömlur fyrir starfsemi söngkóra í landinu. Ég álít, að þetta sé á sama misskilningi byggt og álit minni hl. Þess var einmitt mjög vel gætt, þegar frv. var undirbúið, að það yrði ekki til þess á nokkurn hátt að trufla þá söngstarfsemi, sem er í landinu, eða aðra listastarfsemi, því að í 2. gr. eru undantekningar um þetta. Í 2. gr. segir: „Einstök kvæði, sögur, ritgerðir og kafla úr ritum, svo og einstök lög og kafla úr tónverkum, sem út hafa verið gefin, má hafa um hönd án allra kvaða á samkomum, sem haldnar eru í góðgerðarskyni eða til þess eingöngu að kynna menntir þjóðarinnar eða til mannfagnaðar aðeins, enda komi þá engin greiðsla fyrir flutninginn, svo og á samkomum félaga eða skóla, enda sé ekki greitt fyrir flutninginn og aðgöngueyrir ekki hærri en svarar beinum kostnaði.“ Þegar um starfsemi er að ræða, sem eingöngu er menningar starfsemi, er ekki tekið fyrir verkin og starfsemi söngkóra fellur undir það. Hins vegar er ranglátt, að söngkórar, sem flytja verk tónlistarmanna, græði á slíkri starfsemi, en höfundurinn fái enga þóknun fyrir verk sitt. Það er orðið mjög nauðsynlegt, að rithöfundum og listamönnum sé tryggður réttur yfir verkum sínum, og ég álít, að þessar aðfinnslur eigi ekki við rök að styðjast, og að vísa frv. frá með rökstuddri dagskrá álit ég fjarstæðu. Það hefur allt of lengi dregizt að gera breyt. um þessi mál, og þrátt fyrir það, þótt þál. vær í samþ., getur það dregizt mjög lengi, að ný löggjöf verði samþ.

Ég vildi þá segja örfá orð um þær tvær brtt., sem komu fram. Þær ganga báðar í sömu átt, að tryggja það, að þessi ákvæði geti á engan hátt truflað starfsemi söngfélaganna í landinu. Það getur virzt svo í fljótu bragði, að hér sé um svo skyldar till. að ræða, að hægt hefði verið að bræða þær saman, en þó er munurinn á þeim mjög mikill. Önnur brtt. er frá hv. 2. þm. Árn. Þar segir: Söngfélög og aðrir, er hafa með höndum tónlistarstarfsemi án þess að þeir taki sérstaka greiðslu fyrir, skulu og njóta undanþágu samkvæmt ákvæðum síðustu málsgreinar.“ Svo en hin brtt. Þar segir: „Það skal tryggt með reglugerð, að ákvæði laga þessara hindri í engu starfsemi söngfélaga og annarra hliðstæðra félaga, sem halda uppi tónlistarstarfsemi með þeim hætti, að félagsmenn taka enga greiðslu fyrir störf sín.“ Það er gert ráð fyrir hér í frv., að reglugerð verði samin, og við, sem flytjum brtt. á þskj. 536, viljum, að þetta sé tryggt með reglugerð, en teljum mjög slæmt, ef fram koma undanþáguákvæði við sjálf l., því að við álítum, að það sé sama sem að fella allar skorður burtu og þá sé alltaf verið að koma fram með till. um nýjar og nýjar undanþágur og þess vegna sé rétt, að það sé tekið fram, að ákvæði l. hindri í engu starfsemi söngfélaga.

Ég held, að það sé óþarfi að fara fleiri orðum um þetta mál. Ég mæli með því, að rökst. dagskráin verði felld og frv. samþ., því að með samþykkt þess er ekki langt gengið í því að tryggja rithöfundum rétt í samanburði við það, sem gert er í öðrum löndum, en þeim tryggður nokkur réttur og verstu annmarkarnir á löggjöfinni frá 1905 a.m.k. þar með úr sögunni.