17.03.1943
Efri deild: 74. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Ég verð að viðurkenna, að ég hef takmarkað vit á þessu máli öllu, en ég tel eigi að síður hæpið að afgreiða það án þess að það sé áður rækilega undirbúið. Eins og hv. þd. er kunnugt, var nýlega samþykkt í Sþ. þáltill., þar sem skorað var á ríkisstj. að láta endurskoða l. um rithöfundarétt og undirbúa heildarlöggjöf um þetta efni. Nú dreg ég ekki í efa, að nauðsyn sé á því að undirbúa nýja löggjöf um rithöfundarétt og ég efast ekki heldur um, að sá ráðh., sem fer með þessi mál til næsta þings, muni verða við fyrrnefndri áskorun. Sá ráðh. mun eflaust fela undirbúning málsins þeim mönnum, sem færastir geta talizt, fyrst og fremst rithöfundunum sjálfum, auk þess að góður lögfræðingur verði látinn fjalla um málin jafnframt. Ég tel, að þessu ætti að geta orðið lokið fyrir haustið, því að ég ætta, að þegar hafi allverulegur undirbúningur farið fram. Rithöfundar munu sjálfir hafa unnið nokkuð að þessu og auk þess tveir hæstaréttardómarar fyrir fráfarandi stj. En ef þetta er athugað, virðist ekki bráð þörf að gera þær ráðstafanir, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Svo er það, að í 3. gr. segir, að lögin öðlist þá fyrst gildi og komi til framkvæmda, þegar settar hafi verið reglur samkv. 2. málsgr. og menntmrh. staðfest þær. Það getur verið, að við muni þurfa nokkuð ýtarlegs undirbúnings þessara reglna, og ég á ekki víst, að sá undirbúningur yrði löngu á undan heildarundirbúningi málsins. Mér sýnist því ekki óráðlegt að vísa þessu máli til ríkisstj. á sama hátt og Alþ. hefur falið henni að undirbúa löggjöf um efnið. Ég skil ekki, að þetta mætti ekki bíða eftir þeirri heildarlöggjöf.