18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1228 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Ég er, eins og hv. 1, þm. Reykv. (MJ), undrandi á því, hve langt sumir hv. þm. í þessari d. ganga í þá átt að reyna á allan hátt að tortryggja ákvæði þessa frv. Ég vil ekki lengja umr. um þetta, enda virðist mér það gersamlega þýðingarlaust að fara að deila hér um einstök ákvæði frv. á lögfræðilegum grundvelli. Hins vegar sé ég ekki — þrátt fyrir þau andmæli, sem hér hafa komið fram, og þá tortryggni, sem virðist hér ríkjandi, — að það séu miklar ástæður til hennar. Ef eitthvert mál kemur fram hér á hæstv. Alþ., sem varðar listamenn, þá verð ég þess var, að hv. þm., ekki sízt hér í hv. d., þykjast þurfa að vera sérstaklega á verði og vakandi, og væri æskilegt, að þeir væru það þá ekki síður í öðrum málum. Þeir líta svo á, ef eitthvað kemur fram, sem varðar rétt og hagsmuni listamanna, þá sé þeirra tími til kominn til þess að standa sem bezt á verði. Og hv. 6. þm. Reykv. (BBen) margtók það nú fram í ræðu sinni, og var það vafalaust til gamms gert, að Sósfl., sem væri eini stuðningsflokkur þessarar hæstv. ríkisstj., væri hér með einkennilegt vantraust á ríkisstj., að treysta henni ekki til að afgreiða þessi mál eins fljótlega og þingið. En þar sem hann marglýsti því yfir, að Sósfl. væri eini stuðningsflokkur þessarar stjórnar, þá er kannske ekki varlegt að treysta því, að hún sé mjög föst í sessi. Það gæti kannske hugsazt, að hinir þrír flokkarnir tækju það til bragðs að fella þessa ríkisstj. Og hvernig væri þá þessu máli komið?

Hv. 1. þm. Reykv. taldi, að löggjöf gæti verið á næstu grösum um þetta mál, þó að þetta frv. væri ekki samþ. Ég geri nú ráð fyrir, að hv. þdm. hafi reynslu fyrir sér í þeim efnum, hvað það gildir að öllum jafnaði að vísa málum til ríkisstj. Er það víst oft í hámælum haft, að það sé nokkurt jafngildi því að grafa málin. Og svo framarlega sem þessi l. eru á næstu grösum, þá er það þá líka enn styttri tími, sem þessi l., sem frv. stefnir að, giltu, og því hættuminna að samþ. þau.

Hins vegar þarf þó hér ekki eingöngu að vera um að ræða að vantreysta ríkisstj., sem ekki heldur er, heldur ekki síður vantraust á Alþ. sjálfu í málefnum listamanna. Það er nú ekki víst, um hin nýju l., sem ríkisstj. hefur í undirbúningi um þetta, hvernig undirtektir þau fá hér

Alþ. Svo að með samþ. þessa frv. sem fyrir liggur, sem eru þó helztu réttarbætur. sem rithöfundar og aðrir listamenn þurfa að fá, þá vita menn þó, hvað þeir hafa á hendinni, en ekki um það, hvað síðar kemur, ef frv. um þetta efni kemur fram frá ríkisstj., sem maður veit heldur ekki, hvað lengi dregst.

Viðvíkjandi þessum aðfinnslum, sem komið hafa fram frá stjórn sambands karlakóranna, þá álít ég svipað um það efni eins og tortryggni hv. þm., að það eigi ekki við mikið að styðjast. Þetta frv. er áreiðanlega ekki samið til þess að hindra að nokkru leyti listastarfsemi í landinu, svo sem karlakóra eða annarra, heldur veita þeim. sem listir stunda, þann minnsta rétt, samanborið við það, sem þeir hafa í öðrum löndum. Og ef samþ. er þáltill., sem tekið hefur verið hér, sem ég er m.a. flm. að, og þá ekki síður ef samþ. er brtt. hv. 2. þm. Árn., þá er það víst fullkomlega tryggt, að þessi löggjöf mundi ekki að neinu leyti skaða karlakóra.

Ég tel það ekkert ofurkapp af minni hendi, þó að ég fylgi þessu máli svo fast. Ég held, að það felist ekki nema nauðsynleg varúð í því. Því að ég verð að segja það, að ég treysti því ekki, að þessi löggjöf sé á næstu grösum, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um. Og vil ég heldur sjá, hvaða hug hv. þm. bera til þessa máls af þeirri afgreiðslu, sem þetta frv. fær. Og ég leyfi mér að efast um, að þessir sömu hv. þm., sem ekki vilja samþ. þetta frv., gætu ekki einnig fundið hinni nýju löggjöf, sem fram yrði lögð, sitt hvað til foráttu og fundið eitthvað til þess að tefja með framgang hennar hér á þingi, þó að hæstv. ríkisstjórn reyndi að ráða sem bezt þeim málum.