18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég vil að gefnu tilefni frá hv. 7. landsk. þm. (KA) með öllu mótmæla þeim fullyrðingum, sem hann hélt hér fram, að þegar eitthvert mál væri fram flutt vegna listamanna, þá hópuðust hv. þdm. gegn því máli. Það er óvirðulega og óskynsamlega mælt af manni, sem flytur mál fyrir listamenn. Og bak við allt þetta raus hans efast ég um, að fylgi nokkur hugur máli. Þessi hv. þm. ætti sem fæst að tala í þessa átt. Þessi hv. þm. gefur líka hæstv. ríkisstj. að sök, að það sé sama sem að drepa málið að vísa því til hennar. En hvers vegna voru þá þessir menn að bera fram þáltill. í sameinuðu Alþ. um að láta ríkisstj. athuga málið, þegar svo hv. 7. landsk. — forsvarsmaður ríkisstjórnarinnar — lýsir yfir, að það sé alveg það sama sem að drepa mál að senda það til ríkisstj.

Sannleikurinn í málinu er þessi: Listamenn hafa undirbúið þetta mál svo lélega, að jafnvel þessi hv. þm. varð að gera á því bragarbót og biðja um að laga á því alveg auðsjáanlega galla. Og hann ætti nú líka að taka þeim sönsum hér í hv. d. að viðurkenna þau rök, sem hér eru borin fram, sem hann eðlilega hefur enginn maður verið til að hrekja hér í dag undir þessum umr. og aldrei komizt nálægt því.

Ég vil ekki ræða efnislega um þetta frv. Það er langeðlilegast, að frv. fái þá mildustu afgreiðslu, sem það getur fengið í þeim afkáralega búningi, sem það kemur hér inn í þingið, að því verði vísað til ríkisstj., í því trausti, að hún hafi skynsemi fram yfir þá menn, sem að þessu frv. standa, sem er hér borið fram af meira kappi en forsjá.