18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég ætla aðeins að gera grein fyrir minni afstöðu til þessa máls.

Það hefur verið fært aðallega fram gegn þessu frv., að það sé illa undirbúið og menn vildu ekki, að þingið léti frá sér fara löggjöf um þetta efni án ýtarlegs undirbúnings og þess vegna ætti að vísa málinu frá á þennan hátt, sem fram er komin till. um.

Ég get vel fallizt á það, að málið sé ekki nægilega undirbúið. En eftir því, sem kunnugir menn fullyrða, sem athugað hafa þessi mál, mundi undirbúningur löggjafar um þessi mál, ef hann ætti að vera ýtarlegur, kosta mjög mikla vinnu. Og þeir fullyrða, að ekki séu líkur til þess, að því verki verði lokið fyrir haustþingið. Þess vegna virðist mér það ljóst af athugun þessa frv. og af þeim aths., sem hér hafa verið fram bornar um þetta frv., að frv. sé ekki svo gallað, að það megi ekki samþ. það án þess að það sé til minnkunar fyrir þingið að ganga frá því máli þannig til bráðabirgða. Ég álít, að þau ákvæði, sem felast í a- og b-lið 1. gr. frv., séu af hverjum manni talin sjálfsögð ákvæði. Ég efast um, að til sé nokkurt annað land, þar sem að ósekju væri hægt að láta „kopiera“ listaverk, hvað, sem listamennirnir, sem listaverkið er eftir, vilja eða segja um það. Það gæti verið misjafnlega vel gert. Og ef ljósmyndir væru teknar af t.d. málverkum, þá gæti það komið illa við þá, sem málað hafa þau listaverk. En þannig er löggjöf háttað nú hér á landi, að listamenn hafa enga vernd gegn slíku, þó að yfirleitt veiti öll þjóðfélög listamönnum sínum slíka vernd. Og ég sé ekkert athugavert við það. að taka upp ákvæði um þessa sjálfsögðu vernd og það sé gert til bráðabirgða með þessum l., sem giltu þangað til vel undirbúin löggjöf væri samþ. um þessi mál. Og þó að ég búist við, að ég tæki ekki upp á því að fá leyfi ríkisstj. til þess um þau listaverk, sem eru í ráðherrabústaðnum, þá mætti láta taka „kopíu“ af hvaða listaverki sem er, eins og nú er hér á landi, og jafnvel láta fúskara gera það, án þess að listamennirnir, sem verkin eru eftir, gætu þar neitt við ráðið. Ég sé þess vegna ekkert varhugavert við þessi ákvæði nema það, að ég álít ákvæði c-liðar 1. gr. frv. vera allt of strangt. Ég álít, að það sé rangt að banna mönnum með öllu að sýna opinberlega listaverk, sem þeir eiga, en það er fortakslaust bannað í c-lið. Ég mun ekki koma með brtt. við frv. við þessa umr., en býst við að gera það við 3. umr. Og það ætti að mínu áliti að vera þannig, að það mætti ekki sýna opinberlega í hagnaðarskyni slík verk. Það ætti að bæta þeim orðum þarna inn í. Því að það skiptir verulegu máli, hvort sýning fer fram á listaverkum í þeim tilgangi að græða á því peninga eða sýningin er aðeins framkvæmd frá menningarlegu sjónarmiði. Þó að þetta frv. sé frumsmíði, þá get ég vissulega greitt því atkv. mitt. Og ég held, að það sé þá ekki skaði skeður, þó að frv. væri samþ., enda þó að menn álíti, að löggjöf, betur undirbúin, um þetta atriði verði sett á næsta hausti. Það kæmi þá reynsla á þetta í sumar þangað til heildarlöggjöfin er sett. Og ef svo skyldi verða, að dráttur yrði meiri á þeirri heildarlöggjöf en hv. þm. gera ráð fyrir nú, sem ég geri nú ráð fyrir að verði, þá er ekki nema um það tvennt að ræða, annaðhvort að lagfæra þetta frv. eða láta listamennina vera án þessarar verndar. En þó að mikið hafi verið rætt um það hér í hv. d., að málið sé illa undirbúið, held ég, að oft hafi verið verr gengið frá málum, sem hér hafa verið afgreidd, því að mér er sagt, að hæstaréttardómarar hafi samið frumdrætti að frv.