18.03.1943
Efri deild: 76. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

111. mál, rithöfundarréttur og prentréttur

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég ætla aðeins að gera stutta aths. í sambandi við þá nýjung viðvíkjandi eignarréttinum, sem felst í þessu frv. Ég hefði líklega ekki fremur en ýmsir hv. þm. í Nd., sem létu þetta fram hjá sér fara, veitt því eftirtekt, ef ekki hefði viljað svo til, að ég átti fyrir tíu árum tal við málara einn hér í bæ, en um það leyti var listsýning í Stokkhólmi. Hann sagði við mig: „Líklega sýnum við ekkert, ef þessu fer fram.“ Ég svaraði, að þar sem landið styddi þetta og styrkti, mundi ríki ð senda myndir af sinni hálfu á sýninguna, ef málararnir vildu ekkert senda sjálfir. Þá svaraði hann: „Til þess hefur ríkið engan rétt.“ Þá þegar var farið að bóla á þeim hugsunarhætti, að ríkið hefði ekki leyfi til að sýna myndir, sem það hefði keypt af innlendum málurum. Þessi furðulega kenning varðandi eignarréttinn mun eiga sér fá dæmi, jafnvel þó að farið sé eftir dönskum fyrirmyndum, eins og vani er um margt hér á landi. Þetta með öðru virðist benda til þess, að málið sé ekki eins vel undirbúið og látið hefur verið í veðri vaka. Þá má geta þess, að íslenzkir söngkórar telja, að með þessum ákvæðum væri mjög skertur réttur þeirra og list þeirra lömuð. Hefði ekki mátt minna vera en talað hefði verið við þá um þetta, áður en farið var af stað með það, en þetta hefur ekki verið gert.