19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Ólafur Thors:

Innan Sjálfstfl. er það nokkuð almenn skoðun, að þetta frv. geti ekki eitt fyrir sig orðið veigamikil bót á vandkvæðum. Það er vitað, að það, sem fyrst og fremst eykur dýrtið og hækkar vísitölu, er verðlag innlendrar vöru og vinnulaun, og hvorugt er bundið samkv. frv., heldur aðrar vörur, sem hafa miklu minni áhrif. Það er von, að menn beri kvíðboga fyrir, að af þessu frv. geti ekki mikla blessun leitt, Engin sönnun liggur fyrir um, að innlendu vörurnar þurfi að hækka í verði, en aðrar vörur, sem sýnt er með óyggjandi rökum, að þurfi að hækka, eigi að haldast í óbreyttu verði með nauðungarráðstöfun. Mér finnst það ekki rökrétt hugsun í frv. að binda ekki verð á því, sem mestu veldur um hækkun vísitölu og ósannað er, að þurfi að hækka, en binda hitt, sem litlu skiptir um vísitölu og sannað er, að þarf að hækka. Nú hefur ríkisstj. að vísu lýst yfir, að hún hefði tryggt sér, að til hækkana muni ekki koma á innl. vörum né til grunnkaupshækkana. Þó að ég hafi ekki eftir minni ráðherrareynslu ástæðu til að treysta ákaflega vel loforðum þeirra n., sem því verðlagi ráða, skal ég ekki bera brigður á þessar yfirlýsingar. Auk þessa eru yfirlýsingar um, að kaupgjald muni ekki hækka, mikill styrkur fyrir þessa stjórn. Nú leggur hún á það mikla áherzlu, að einingu verði náð um þetta fyrsta spor hennar í þessum málum. Þó að ég hefði nokkra tilhneigingu til að vera móti frv. að því, sem mér finnst það órökrétt, hef ég sakir óska hæstv. ríkisstj. leyft að fylgja því innan míns flokks, að frv. yrði veittur óskoraður stuðningur. Ég þarf ekki að taka það fram, að einstakir þm. Sjálfstfl. hafa óbundnar hendur um, hvernig þeir greiða atkv., en meginþorri flokksins mun fylgja frv.

Varðandi brtt. hv. 7. landsk. víðurkenni ég, að rök hans eru rétt. En ef sú till. yrði samþ., gæti hún stofnað öllu frv. í beinan voða og þar með jafnvel gert ríkisstj. ókleift að starfa áfram. Þótt ég teldi þessa breyt. réttláta, mun ég því greiða atkv. gegn henni.