19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sveinbjörn Högnason:

Ég get ekki látið hjá líða að benda á nokkur merkileg atriði, sem fram hafa komið. Flokksforinginn Ólafur Thors skrifaði nýlega í Mbl., að flokkur sinn hefði reynt að skapa þjóðareiningu til þess að leysa þessi vandamál. Nú segir hann, hv. þm. G.K., þannig frá einingunni í flokki sínum um þetta mál, að augljóst er, að hann á talsvert óunnið af sigrum á þeim heimavígstöðvum, áður en hann getur talizt líklegur maður til að koma á þjóðareiningu. Hugsunarháttur hans er alltaf sjálfum sér líkur. Honum nægir ekki að festa verð á landbúnaðarafurðum, ef það er gert með frjálsa móti, heldur vill hann gera það með lögþvingun, ef hann þyrði. Þegar yfirlýsing er komin um, að það hækki ekki og fram kemur skrifleg brtt. þess efnis, að samt sem áður skuli lögbanna þá hækkun, sem ekki er um að ræða neina, stendur hann upp til að staðhæfa, að frv. sé órökrétt, nema þessi dæmalausa brtt. yrði samþ., dylgjar um, að yfirlýsingum verðlagsnefndar sé ekki að treysta, reynir að kveikja úlfúð, ef nokkur kostur væri á. Og þetta er honum full einlægni, að ekki sé nóg að hindra hækkun innlendra vara, heldur þurfi það að gerast á þann hátt, sem hann kýs af einhverjum ástæðum, með lögbanni. Hann virðist hugsa sem svo, að þeim, sem ætla ekki að hækka, eigi að banna með lögum að gera, það, — lögin sett til höfuðs þeim, sem ekki brjóta, — en þeim sem ætla að hækka og hann segir, að þurfi þess nauðsynlega, eigi ekki að banna neitt, — lögin ekki til að hindra þá, sem brjóta.

Það er talandi tákn um Sjálfstfl., að hann klofnar nú um þetta mál. Og hvers er síðan af honum að vænta?