30.03.1943
Neðri deild: 86. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1237 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

100. mál, alþýðutryggingar

Frsm. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þetta litla frv., sem nú liggur hér fyrir til umr., er upphaflega flutt í hv. Ed. af tveimur hv. þm. þar, og var þá á þá lund, að ríkissjóður og hlutaðeigandi bæjar- eða sveitarsjóðir skyldu, hver um sig, greiða í sjóð sjúkrasamlaga 1/3 greiddra iðgjalda, í stað 1/4 áður, þó ekki yfir 12 kr. fyrir hvern tryggðan mann. Undir meðferð málsins í Ed. var þessu breytt á þá lund, að þetta framlag skyldi haldast óbreytt frá því sem áður var (1/4), en þó mætti greiða 12 kr. fyrir hvern tryggðan mann.

Allshn. þessarar d. hefur orðið á einu máli um það að mæla með því, að frv. nái fram að ganga óbreytt, eins og það var afgr. frá hv. Ed. N. telur eðlilegt, að ekki sé greitt meira úr opinberum sjóðum til sjúkrasamlaga en nauðsyn ber til, og má skoða það sem einn lið í því að reynt sé að standa á móti vaxandi dýrtíð. En greiðsla til sjúkrasamlaga er einn sá liður, sem telst með í verðvísitölunni á hverjum tíma. Að öðru leyti þarf frv. ekki skýringa við, svo einfalt sem það er. Allshn. leggur til, að það verði samþykkt eins og það nú liggur fyrir.