09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Hermann Jónasson:

Þar sem mál þetta kemur vafalaust í þá n., sem ég á sæti í, þá verður tækifæri til að athuga það þar. Þess vegna get ég sparað mér verulegar umr. um málið á þessu stigi.

Það er algerlega málefni Reykjavíkurbæjar út af fyrir sig að ráðast í þessi landakaup núna til viðbótar þeim kaupum, sem bærinn hefur áður gert. Það er algerlega málefni Reykjavíkurbæjar að ráðast í að taka Grafarholt eignarnámi, nú sem stendur. Því kann að verða svarað, að líklega verði það annars selt öðrum. En það breytir ekki málinu nema að nokkru leyti. Bærinn getur tekið það eignarnámi síðar. Hitt er vitað mál fyrir þá, sem fylgjast með verðlagi, að verð á jörðum stendur áreiðanlega hæst núna. Og þess vegna er það frá mínu sjónarmiði dálitið vafasamt að ráðast í slík jarðakaup. Enda er auðsætt mál, að það snertir að því leyti almenna hagsmuni, að þegar ráðizt er í jarðakaup eins og þessi, þá hjálpar það á vissan hátt til þess að hækka verð á fasteignum, þegar bærinn gengur á undan með að kaupa jarðir í stórum stíl háu verði. Það getur ekki leynt sér fyrir þeim, sem fylgjast með því, sem er að gerast í verðlagsmálum, að þó að stöðugt sé verið að tala um að lækka dýrtíðina, þá virðist vera komið að þeim tímamótum, að menn þurfi ekki að hafa mikið fyrir því. Það er fjöldi af húsum hér í bænum, sem er ekki seljanlegur lengur fyrir sama verð og fyrir mánuði síðan. Það er komin kyrrstaða á söluna og komið að því, að verðið fari að falla. Það er af þeirri ástæðu, að framleiðslukostnaður er kominn á það stig, að það er ekki hægt að hækka neitt.

Það er mál Reykjavíkurbæjar, hvað hann vill ráðast í á þessum tímum. En sem alþm. og borgari í þessum bæ vildi ég ekki láta þess ógetið, að ég tel þessi kaap snerta að nokkru leyti almenna hagsmuni, eftir því, sem ég sagði áðan.

En það er annað atriði, sem ég vildi spyrjast fyrir um. Mér er sagt, að með þessum takmörkum, sem sett eru í frv. þessu, verði inni í lögsagnarumdæmi Rvíkur tveir hólmar, Blikastaðir og nokkur hluti af Lágafellslandi, sem verði þá alveg umluktir af landi, sem er í lögsagnarumdæmi Rvíkur. Ég vildi spyrjast fyrir um það, hvort svo sé. Ég hef nú ekki haft tækifæri til að athuga, hvort þannig stendur á. Og ef svo er, vil ég spyrjast fyrir um það, á hverju það er byggt. því að það eru vitanlega ákaflega óheppileg hreppatakmörk. Í annan stað vil ég spyrjast fyrir um það, hvort ekki hafi legið kauptilboð fyrir frá hlutaðeigandi hreppi. Mér er sagt, að svo sé og að þeir hafi boðizt til þess að ganga inn á það með samningum, að Grafarholt væri tekið, og takmörk lögsagnarumdæmis Reykjavíkur hefðu þá orðið við Kolku —, að brúnni, sem yfir hana liggur á þjóðveginum — , síðan eftir þjóðveginum að landamerkjum Blikastaða að suðaustan og þar niður að sjó, og hefðu það verið ákaflega eðlileg og greinileg hreppatakmörk. En mér er jafnframt sagt, að þeim samningum hafi ekki verið sinnt.

Það hlýtur alltaf að verða álitamál, eins og hv. frsm. tók fram, hvernig á að leysa það vandamál bæja og borga að fá land, og það ber sízt af öllu að horfa fram hjá þeirri nauðsyn. Hún er mikil fyrir Rvík og marga aðra bæi. En það verður jafnframt að taka tillit til þess, að hreppar, sem liggja að þessum bæjum, séu ekki skertir þannig, að þeim sé ómögulegt að halda áfram að vera til sem sérstök hreppsfélög. Og það getur alltaf komið til álita, þegar taka þarf svo mikið af landi eins hrepps, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., hvort ekki á að fara aðrar leiðir. Því að ég hygg, að það sé skoðun ákaflega margra hreppsbúa, sem hér eiga hlut að máli, að eftir að úr honum verði skipt svipað og hér er gert ráð fyrir, verði ákaflega erfitt að halda honum uppi sem sérstöku hreppsfélagi.