09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Hermann Jónasson:

Hv. flm. (BBen) hefur svar að þeim fyrirspurnum, sem ég gerði um þetta mál, en auk þess, sem í grg. stendur, liggja annars ekki fyrir upplýsingar um málið. Vitað er, að fyrir liggur tilboð Mosfellssveitar og ekki hefur fengizt úr því skorið, hvort ekki mætti nota það fyrir samningsgrundvöll, samningsumleitunum var slitið af hálfu Rvíkur. Það finnst mér eðlilegt, að hreppnum þyki illt að sætta sig við. Við einu atriði, sem skiptir hann mjög miklu, fær hann ekkert svar.

Þetta frv. er engin lausn á jarðamálum Rvíkur. Eins og frá frv. er gengið, er sýnt, að bærinn ætlar að eignast svolitla tungu upp fyrir Varmá og tvo smáhólma í Mosfellssveit. Fleira hefur verið nefnt til marks um þá vanhugsuðu hreppaskiptingu, sem stofnað er hér til. Hvorki hefur heldur verið rannsökuð nauðsyn bæjarfélags né hrepps á að ráða þessum lendum, en allt virðist miðast við jarðakaup; sem bærinn vill gera í Mosfellssveit, á þeim braskgrundvelli virðist þetta lagafrv. byggt í trausti þess að hafa gott málefni, heilbrigða landþörf bæjarins, að skálkaskjóli. Þótt það sé upplýst, að fá eigi eignarnámsheimild á Grafarholti án þess að nota hana, fyrr en verðlækkun sé komin, er afar vafasamt, að slík aðferð sé réttlætanleg eða leyfileg, jafnvel þótt fordæmi væru til. Eða hversu lengi má slík eignarnámskvöð hvíla á jörðum ónotuð? Og liggi ekki á að nota hana, hvað liggur Alþingi þá á að nota hana? Það kom fram, að sölutilboð um Grafarholt lægi fyrir, mig minnir fyrir 600 þús. kr. Það kom einnig fram, að bærinn telur sig ekki geta notað þær stóru byggingar að fullu gagni, sem á Korpúlfsstöðum eru, nema allar lendur fylgi, þ. á m. Lambhagi og Varmá, sem hreppurinn vill halda. Það er fullvíst, ef nota á þessar lendur til venjulegrar búnaðarframleiðslu, að þær eru of dýrar, til þess að búskapurinn geti með nokkru móti borið sig í venjulegu viðskiptaárferði án tugþúsunda eða hundraðþúsunda halla á ári. Og Grafarholt hefði fyrir 3–4 árum ekki kostað nema í mesta lagi af þessum 600 þús., sem það er boðið fyrir, en Korpúlfsstaðatorfan hefði varla selst fyrir helming þess kaupverðs, sem bærinn vill nú fá að greiða fyrir hana. Það væri því miklu betra fyrir Rvík að láta málin ganga sinn gang og sleppa þessum Korpúlfsstaðakaupum. Ef hreppurinn fær sinn rétt, falla kaupin ógild, og það er bezt fyrir bæinn, alveg eins og hann telur sér bezt að bíða með að kaupa Grafarholt. Hreppurinn lítur svo á, að hinn sanni tilgangur þess frv. sé aðeins að skjóta loku fyrir, að hann nái rétti sínum.