09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Eiríkur Einarsson:

Það var nú eiginlega ekki beint til að ræða um hin sérstöku málsatriði hér, sem ég stóð upp. Ég ætlaði öllu heldur að nota tækifærið til að ræða nokkuð almennt um þau mál, sem þetta mál tilheyrir.

Ég minnist þess, að á næstsíðasta Alþ. flutti ég þál. um áskorun til stj. um að gæta þess vel, er jarðir losnuðu í nágrenni kaupstaða, að þær yrðu þá hagnýttar sem bezt fyrir íbúana. Því miður vannst þá ekki tími til að afgreiða þetta mál, en ég býst við, að það verði vakið bráðlega af mér eða öðrum, af því að þetta er svo mikið framtíðarmál fyrir kaupstaðina. Það er mikill hnekkir, hve mikið olnbogarúm þá vantar vegna landbúnaðarframkvæmda. Þess eru dæmi, að jörðum í nánd við slíka staði hefur verið ráðstafað eins og í svefngöngu með tilliti til þessara mála.

Í sambandi við þetta vil ég geta annars máls frá sama þingi. Það var frv. flutt af hv. þm. N.-Þ., um eignarnámsheimild fyrir ríkið á landinu í Hveragerði, sem byggist ört. Svigrúm er þar lítið og ábúðarrétturinn í molum. Landeigendur eru þar margir, en landrými lítið, og gerði þetta frv. því ráð fyrir, að ríkið eignaðist landið, svo að fólkið vissi fremur, hvar það stæði með tilliti til þessa máls. Þessu frv. var ég fylgjandi, og það var lögfest. Nú er ekki því að leyna, að þessa heimild átti að nota til hagsbóta fyrir fólkið, og þótt ég styðji núverandi stjórn, þá tel ég vel farið, að hún hefur enn ekki framkvæmt þetta, og veit ég, að ýtt verður undir, að þessi heimild verði notuð. Ég er sannfærður um í þessu sambandi, að verðið verður ekki látið ráða úrslitum, heldur hitt, hvort fólkinu er nauðsyn að framkvæmd laganna eða ekki. Og ef menn eftir beztu samvizku komast að raun um, að fólkinu er nauðsyn á þessu, þá mun það mega sín meira en hátt eða lágt kaupverð. Ég ætla ekki að banda mér sérstaklega í það mál, sem hér er til umræðu, en get þess til, að þar munu sömu sjónarmiðin verða látin ráða.

Annars eru það einkennilegar stefnur, sem uppi eru á þinginu um þessi mál. Samkv. þessu frv. er það Reykjavíkurbær, sem fær eignarnámsheimildina, en ríkið fékk hana í Hveragerði, og er ekkert sérstakt ósamræmi í því, þar sem Hveragerðið er svo fámennt og ekki einu sinni sjálfstætt hreppsfélag.

Þó vil ég segja, að stefnan í þessum málum sé ærið reikul, þar sem annars vegar er stofnaður sjóður til að kaupa jarðir handa ríkinu, en hins vegar líður varla svo nokkurt þing, að ekki komi fram fleiri beiðnir um kaup á jörðum ríkisins. Þetta þarf ekki að stangast, en þó er oft svo, því miður, vegna braskduttlunga, sem sumir hv. alþm. eru of háðir.

Ég vil láta þetta í ljós til að sýna skilning á vaxtarþörfum bæjanna í þessu efni og þá ekki sízt höfuðstaðarins.

Hins vegar á að verða alhliða þróun í þessa átt, og þó að einstakir ábúendur virðist í byrjun bíða hnekki við þetta, þá er sanngjarnt, að minni nauðsyn þoki fyrir meiri nauðsyn. Það álít ég, að eigi að vera aðalmarkið í þessum málum yfirleitt.