09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Hermann Jónasson:

Það er aðeins mjög stutt mál. Það kom fram hjá hv. þm. Reykv., að það væri einkennilegt, að ef kaupin væru hagkvæm fyrir hreppinn, að þau væru það þá ekki einnig fyrir bæinn. Þessu er því til að svara, að það eru hinar stóru eignir á Korpúlfsstöðum, sem eru hinn óhagkvæmi hluti kaupanna. Kaupin eru aðeins hagkvæm að þeim hluta á eignunum, sem hreppurinn vill neyta forkaupsréttar á. Þetta vildi ég, að kæmi fram.

Annars tel ég ekki rétt að ræða um þetta meira að sinni. Hve lengi legið er á eignarnámsheimildarlögum, kemur þessu máli eiginlega ekkert við.

Það mun síðar koma í ljós, að ekki er verið að leysa vanda Rvíkur, þótt Grafarholt verði keypt. Það er tiltölulega lítil byggð þar í landi. Aftur á móti er mikil og skipulagslaus byggð á milli Rvíkur og Hafnarfjarðar, sem ekki er innan lögsagnarumdæmis bæjarins. Annars er ég sízt á móti landakaupum Rvíkur. Meðal annars tel ég ekki nema eðlilegt, að bærinn fái umrætt land suður undir Hafnarfjörð.

Til sönnunar því, að ég er ekki á móti þessum málum, skal ég nefna það, að ég var með eignarnámi í Hveragerði. Mér er kunnugt um, að þar er nú búið að meta nokkurn hluta landsins, og er það mat þegar komið upp í 700 þús. kr. Vitanlega kemur ekki til mála, að ríkið kaupi þetta land, eins og stendur, á meðan allt er á toppinum. Það er sama sem að kasta peningunum á glæ, og álít ég, að stj. hafi gert rétt í þessu.

Ég álít, að þetta mál þurfi rækilegrar athugunar, áður en leystur er vandi Rvíkur og hreppanna í grennd, og að ekki beri að kaupa á þessum tímum. Verðið verður seinna ekki nema brot af því, sem það nú er, svo að óþarfi er að fara sér óðslega. Ég álít því, eins og ég sagði áðan, að rétt sé af stj. að hafa ekki notfært sér eignarnámsheimildina í Hveragerði enn þá.