09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (2221)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, að samanburður minn á hagkvæmni eða óhagkvæmni kaupanna í Mosfellssveitinni er réttur. Það eru stórar húseignir á báðum þeim hlutum, sem hv. þm. Str. skipti eignunum í, eins þeim hlutanum, sem hreppurinn vill fá. Það er t.d. mjög stórt fjós og hlaða fyrir ofan veginn hjá Lágafelli. Þessar eignir eru metnar eftir alveg sömu reglum og hinar, og sýnir það sig því, að hreppnum þykir ekki verðið hátt. Aftur á móti sýnir eftirsóknin, að kaupin eru beinlínis hagkvæm, enda er sannleikurinn sá, að þau eru gerð með fyrirstríðsverði, svo að kaupverð Korpúlfsstaða er ekki nema lítið brot af núverandi verði Grafarholts, sem hv. þm. Str. átaldi einmitt, að ekki skyldi hafa verið gengið að.

Ég skal játa, að bærinn hafði hug á því um skeið að eignast Digranesland. Fóru fram umleitanir í þá átt, að bærinn fengi það í skiptum fyrir hluta úr Gufuneslandi, sem tekinn var undir loftskeytastöð eða talstöð. En þá stóð á hv. þm. um þetta, og féll svo málið niður. En það er nú minni nauðsyn fyrir bæinn að eignast þetta land, þar sem það er í eigu ríkisins og ríkið hefur tekið upp góða nýtingu þess, skipt því niður í erfðafestulönd með góðum kjörum, svo að Reykvíkingar hafa þess full not, eins og það væri innan lögsagnarumdæmis bæjarins. Er í þessu farið eftir því fordæmi, sem Reykjavíkurbær hefur gefið um nýtingu lands síns.

Það er því ekki eins mikil ástæða til að taka þetta land eins og Grafarholt.

Ég nenni svo ekki að deila meira um þetta, en sumarbústaðirnir, sem byggðir hafa verið fram með hitaveituskurðinum í Grafarholtslandi. eru öllum jafnt til skaða og skapraunar.

Að mínu viti er það ekki efamál, að ástæða er til fyrir það opinbera að skerast í leikinn, þegar menn kunna sér ekki betur forráð en raun ber þarna vitni um.