27.01.1943
Efri deild: 42. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Við 2. umr. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Ég mun því að svo stöddu leiða málið hjá mér. En við hv. þm. Str. höfum orðið ásáttir um eina brtt. í þeim tilgangi að reyna að fá leiðréttingu á einu ákvæði frv. Það er rétt að taka það fram, að við berum fram þessa brtt. af því, að við álítum, að ekki sé hægt að afgreiða frv. án hennar. Brtt. er aðeins tilraun til að leiðrétta það, sem hv. d. getur ekki gengið fram hjá.

Ég vil vekja athygli á því, að þegar bærinn ræddi við eiganda Korpúlfsstaða um sölu á jörðinni, þá hélt eigandinn fast við það að halda eftir hluta hennar, sem er um 63 hektarar að stærð og bezti hlutinn að landgæðum, er mér sagt. Enda þótt hann héldi fast við þetta, þá hefur engin tilraun verið gerð af bæjarins hálfu til þess að fá eignarnámsheimild á þessu landi eða fá það á annan hátt undir bæinn. Þvert á móti er gert ráð fyrir því í frv., að jörðin skiptist milli bæjarins og Mosfellssveitar. Flm. frv. hafa ekki séð sér fært að ganga nær eigandanum en þetta. Aftur á móti vil ég benda á, að frv. gengur mjög nærri eiganda Grafarholts. Þar er gert ráð fyrir, að bærinn fái eignarnámsheimild á Grafarholti hvenær sem er. Með þessu móti yrði eigandi þeirrar jarðar illa settur, jörðin mundi falla í verði, og ef hún yrði tekin, þá yrði hann að leita annað. Það gæti orðið erfitt. Hann hefur komið sér þar vel fyrir og byggt allt upp með það fyrir augum, að jörðin gengi að erfðum.

Ég vil því freista þess að fara fram á, að inn í frv. verði tekin ákvæði um hliðstæða skiptingu á Grafarholti og Lágafelli. Ég vil fara fram á, að eiganda Grafarholts verði einnig leyft að halda eftir 63 hektörum af sinni jörð, og þá helzt spildunni fyrir neðan veginn, sem er mest ræktuð. Á þessum grundvelli er brtt. okkar flutt. Það er fyrst breyt. við 1. gr. Enn fremur breytist 3. gr. þannig, að við hana bætist nýr málsliður. Í þessum brtt. felst það, að eiganda Grafarholts verði ætlaður álíka stór hluti af sinni jörð og eiganda Lágafells hefur verið ætlaður, og að sá hluti fái einnig að vera áfram í Mosfellssveit.

Ég vænti þess, að hv. d. geti fallizt á þetta og þá einkum með hliðsjón af því, að flm. frv. hafa fallizt á það sama við eiganda Lágafells.

Að öðru leyti getum við ekki fellt okkur við frv. þetta, þótt við teljum þetta til bóta og ekki forsvaranlegt að afgreiða málið án þessara breyt.