04.02.1943
Neðri deild: 49. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (2245)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. — Það var eiginlega ljót lýsing, sem hv. þm. Mýr. gaf á þessu máli. Hann einkenndi það með þessum fjórum orðum: Handahóf, hroðvirkni, yfirgangur og ofbeldi. Þetta er mjög ljót lýsing. Og til að undirstrika þetta talaði hann um, að Reykjavíkurbær væri eins og visst stórveldi í heiminum að heimta meira olnbogarúm, en það þýddi sama og „Lebensraum“. Hann sagði, að aðfarir okkar líktust aðferð Japana gagnvart Bandaríkjunum, og þá skildist mér, að borgarstjórinn væri Kuruso, Björn Birnir væri Roosevelt og þetta frv. væri árás, sem gerð hefði verið á Pearl Harbour Mosfellssveitarinnar, sem sé Grafarholt.

Annars fannst mér hv. þm. Mýr. vera með sinni löngu ræðu að bera í bakkafullan lækinn. Öll rök, sem hann hafði fram að færa, eru fram komin í málsskjölum, sem fyrir liggja. Þeir í Mosfellssveitinni eiga kröfurétt á, að röksemdir þeirra séu athugaðar og metnar af fyllstu sanngirni. Til þess hefur allshn. haft aðstöðu, því að rök þeirra hafa legið fyrir í málsskjölum, sem fyrir liggja.

Ég mun ekki fara mörgum orðum um þetta mál nú, en vil aðeins minnast á niðurlagið í ræðu hv. þm. Mýr. Hann vill senda þetta mál Búnaðarfélagi Íslands til umsagnar. Skilst mér þá, eftir því sem fram hefur komið, að þar eigi formaður búnaðarfélagsins, Bjarni Ásgeirsson, að meta rök hreppsnefndarmanns Mosfellssveitar og þm. Mýr., Bjarna Ásgeirssonar. Nú hefur hv. þm. að vísu sagt, að hann hafi lofað að víkja úr dómi. Ég ber ekki brigður á, að hann muni efna það. En þeir vita, sem til þekkja, að þar muni gæta áhrifa þessa myndarlega formanns, jafnvel þó að hann víki úr sæti um stundarsakir.

Það er allt öðru máli að gegna að leita umsagnar búnaðarfélagsins, þegar um það er að ræða að leggja lönd undir smáþorpin, til þess að þorpsbúar geti fengið land til að reka kúabú. Hér er um það að ræða að leggja undir Rvík land, sem bærinn hlýtur að þurfa að nota í framtíðinni til margs konar nota fyrir bæjarbúa. Það hefði verið ómetanlegt fyrir Reykjavíkurbæ, ef framfylgt hefði verið þeirri stefnu í öndverðu að selja ekki þau lönd, sem Rvík er byggð á, til einstaklinga. Það kom fram í ræðu hv. þm. Mýr., að löndin í nágrenni bæjarins eru nú að komast í geipiverð fyrir aðgerðir Rvíkur. Er þá ekki sjálfsagt, að það af þessum löndum, sem er ekki í eigu Rvíkur enn, komist í eigu bæjarins, svo að bæjarbúar í heild njóti þeirrar verðhækkunar, sem verður á þessum löndum vegna hans eigin aðgerða, og fyrirbyggja vandræði, sem af því stafa, að einstök sveitarfélög ráði þeim löndum, sem bærinn er að byggjast á eða þarf að nota til margháttaðrar starfsemi?

Ég vil skjóta því til hv. allshn., þar sem hv. þm. Mýr. heldur því fram, að þetta frv. sé handahófslega gert að því leyti, að takmörkin séu ekki nógu skýrt ákveðin milli Rvíkur og nágrennis, þá er ég honum að vissu leyti sammála. Ég hef haldið því fram í bæjarstjórninni, að taka ætti stærra land en hér er gert ráð fyrir. Ég er hv. þm. Mýr. sammála, að það sé óheppilegt, að mikill fjöldi manna sé þannig settur, að hann sofi í öðru lögsagnarumdæminu, en vinni í hinu. Ég hef lifað við þessa aðstöðu í átta ár. Ég vann í lögsagnarumdæmi Rvíkur, en svaf á Seltjarnarnesi. En eftir því sem lögsagnarumdæmið er víðara, er minni hætta á þessu vandamáli. Nú vil ég benda á, að það er svo með hundruð manna. að þeir vinna í Rvík, en sofa á Seltjarnarnesi og kannske nokkrir í Mosfellssveit, og í sambandi við þetta hafa komið upp ýmis vandamál. Ég vil því skjóta því til hv. n., að hún breyti frv. á þann veg, að allur Seltjarnarneshreppur verði tekinn, Engey og Viðey. Enn fremur hef ég sérstakan áhuga fyrir því, að hv. þm. Mýr. verði borgari í Rvík, og mér finnst einnig sjálfsagt, að Álafoss verði lagður undir lögsagnarumdæmi Rvíkur og landið þar í kring. Því hefur verið haldið fram, að bærinn þyrfti að hafa innan vébanda sinna uppspretturnar, þar sem kalda vatnið er tekið, en mér finnst ekki siður mikils vert, að lagt sé undir bæinn það land, þar sem heita vatnið er, sem á að hita upp íbúðir okkar. Ég vil enn fremur benda á, að eins og frv. er nú, þá verða Blikastaðir eyja inni í lögsagnarumdæmi Rvíkur og landsvæði, sem Thor Jensen á, tengt við Mosfellssveitina með smáspena. (BÁ: Það er líka hólmi.). Hv. þm. upplýsir, að það sé líka hólmi, og því sterkari eru þá rökin fyrir mínu áliti, að svona blettir séu ekki skildir eftir.

Ég vil svo ljúka máli mínu með ósk um, að allshn. taki þetta mál til rækilegrar athugunar og líti með fullri sanngirni jafnt á málstað Rvíkur sem Mosfellssveitar, og svo má ekki gleyma hv. þm. G.K., sem hefur einkennilega aðstöðu í málinu, enda skal ég viðurkenna, að hún er erfið.