16.02.1943
Neðri deild: 59. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1270 í B-deild Alþingistíðinda. (2249)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefur nú gert grein fyrir málinu frá sínu sjónarmiði. Hann kvartaði undan, að ég hreytti ónotum í nál. mínu, en bar ekki móti, að rétt væri þar hermt um skyndiafgreiðslu málsins í n., en þegar málið var tekið fyrir, voru ekki mættir nema tveir, og kunni ég ekki við að afgreiða það að svo búnu, — þannig að ég einn myndaði meiri hl. þegar átti að afgreiða málið. Þá var náð í einn nm. í viðbót, og svo var málið afgr. Ekki fæ ég séð, að í nál. mínu séu nein svigurmæli í garð meiri hl. nema satt sagt um þetta.

Af þeim skjölum, sem fylgja til meðmæla þessu máli, fæ ég ekki fundið þann kunnugleik á málinu, sem æskilegur hefði verið. Málinu hefur verið andæft með mörgum góðum rökum, og meðmælendur þess hafa ekki haft fyrir því enn að færa þar rök á móti, og það hefði mér fundizt frsm. meiri hl. eiga nú að gera. Honum ætti að vera það kært, að málið yrði upplýst í umr. og fylgismenn frv. ættu að leggja mest kapp á það. Ég vona, að hv. frsm. hafi þann kunnugleika á málinu, að honum veiti létt að svara þeim spurningum, sem ég þarf að bera fram, og má vera, að þær upplýsingar, sem hann væntanlega gefur, geti breytt nokkuð afstöðu manna til málsins.

Ekki þarf mörgum orðum að því að eyða, hve gott og gagnlegt Reykjavíkurbæ með sín rúm 40 þús. íbúa geti verið að hafa mikið land til umráða. Hann hefur að vísu allmikið land, en ég vil alls ekki mótmæla því, að hann þurfi meira. En nauðsyn er, að það fáist upplýst, hvernig bærinn notar og situr þær jarðir, sem hann á. Ég hef ekki kunnugleik á því, en mér er sagt, að hann geri það mjög misvel og miklar lendur séu í órækt, en jarðir lélega hýstar o.s.frv. Ég vildi vita, hvað sannast er í þessu, og getur það haft áhrif á afstöðu manna til þess, hvort ástæða sé til að svo stöddu að beita mjög óvenjulegum þvingunarráðstöfunum til að leggja jörð eins og Grafarholt undir bæinn tafarlaust, og á afstöðu manna til frv. yfirleitt. Þarfir Reykvíkinga til lands má einkum telja: þörf á garðlöndum til matjurtamektar og á landblettum til að reisa sumarskýli, þar sem fjölskyldur hafi sæmileg dvalarskilyrði með börn sín og ungmenni. Bærinn hefur hvergi nærri fullnotað lönd sín, sem hann hefur yfir að ráða, til þessara hluta. Raddir hafa verið uppi um það, að auka beri grasrækt í landi bæjarins og þá nautgriparækt. og er það einkum miðað við Korpúlfsstaðalöndin. En það er alveg óséð, hver hagur bænum yrði að því. Enn ber að líta á byggingarefnisþörf bæjarins. Ekki hefur verið sýnt, að það væri á þrotum í bæjarlandinu, og væri einkum um það að ræða, mætti taka eingöngu þá bletti, sem bærinn þyrfti vegna þeirra hluta. Með ákvæðum þessa frv. er gerð svo mikil röskun á tveim sveitarfélögum, að þau bíða þess máske seint bætur, og um Mosfellssveitina, þá sem meira er skert, veit ég ekki, nema henni verði þá ófært með öllu að rísa undir byrðum sínum. Ég vildi biðja hv. frsm. meiri hl. að upplýsa það, hve mikill tekjumissir af þessu yrði fyrir sveitirnar og þá sérstaklega Mosfellssveitina. Athuga þyrfti, hve mikill hluti hreppsgjalda hefur runnið frá þessum jörðum og hverja hlutdeild þær hafa átt í sameiginlegum kostnaði sveitarmanna, hvað þaðan hafi verið lagt til kennslumála o.fl., hve mikið til lögskila eins og smalamennsku eða grenjaleitar, hvern hluta ómagaframfæris sveitarinnar verður að eigna þessum jörðum. Hefur hv. frsm. meiri hl., eins og ég vona, vitneskju um þetta? Vill hann ekki leiða þd. í allan sannleik um þetta? Hvernig verkar breytingin á afkomu sýslufélagsins? Margt fleira væri ástæða til að fá að vita um þetta.

Ég fer ekki að tala um þessa hólma, sem frv. gerir ráð fyrir, að skildir verði eftir og heyri Mosfellssveitinni til áfram, innan um það, sem það gerir ráð fyrir að taka. Þeir eru eitt merki þess, hv e óhönduglega að frv. hefur verið unnið.

Eignarnámsheimildin fyrir Grafarholti er e.t.v. það mikilvægasta í málinu öllu. Það þurfti karlmennsku til að fara slíks á leit á þann hátt, sem gert er, og ég held, að forvígismenn frv. hefðu átt að hugsa sig tvisvar um, áður en þeir gerðu það. Ætla þeir að halda því til streitu? Er það svo augljóst mál, að almenningsheill Rvíkur krefjist þess, svo að stjskr. sé ekki misboðið með þessu ákvæði frv.?

Það á að taka mikinn hluta Grafarholts eignarnámi. Þó á að skilja eitthvað eftir, ca. 60–70 hektara. Um 700 hektara á að taka. Ég hef áður sýnt fram á, hve fjarri öllu lagi það er, að jarðeignir bæjarins fullnægi ekki þörfum hans eins og er þörf landsvæða til bygginga og garðræktar. Ég held, að ómögulegt sé að sannfæra þann, er til þekkir, um annað. Það verður þá að tilfæra einhver önnur sjónarmið, t.d., að bærinn þurfi land til grasræktar fyrir kúabú. Viðkunnanlegra væri þó, að hann væri áður búinn að rækta það land, er hann hefur til umráða, og mætti þá fremur rökstyðja eignarnámsþörfina. En svo er ekki. Þá er og umsögn fylgismanna frv. sú um þetta land, að það sé illræktanlegt, svo að varla á að nota það í þessu skyni, því að meðan gott land er ekki notað í þessu skyni, þá dettur þeim ekki í hug að nota lendur, sem þeir dæma sjálfir illt land.

Ég vil einnig drepa á það í þessu sambandi, að það er ekkert hégómaatriði, hvort þessi kvöð verður lögð á jörðina, jafnvel þó að eignarnámið verði ekki framkvæmt. Með því móti yrði landið áreiðanlega miklu verðminna, ef ekki á að nota eignarnámsheimildina bráðlega. Um það þarf ekki að efast. Það verður því sjáanlega skylda bæjarins, ef frv. þetta nær fram að ganga, að tryggja eigandanum, að hann bíði ekki fjárbagslegt tjón vegna þessarar kvaðar, og bærinn verður þá að kaupa jörðina strax.

Nú er mál þetta þannig vaxið, að óneitanlega hefði verið viðkunnanlegra fyrir bæinn að reyna að komast að samkomulagi við aðilana fyrst og síðan fara þá fram á eignarnámsheimild, ef það hefði ekki tekizt. Ég minnist þess ekki, að slík leið hafi verið farin, að forkaupsréttur hafi verið upphafinn þannig, eins og ætlazt er til, að gert verði með þessu frv. Það mun eins dæmi. Yfirleitt er ekki skemmtileg lýsingin á tómlæti bæjarins um samningsumleitanir í sambandi við þetta mál.

Að lokum vil ég benda fylgismönnum þessa frv. á það, að svo framarlega sem ekki koma fram veigameiri rök í þessu máli en orðið er, þá mun verða greið leið og auðsótt að taka eignir manna eignarnámi framvegis, ef frv. þetta verður samþykkt óbreytt með þeim rökum einum, sem fram eru komin. Er það virkilega svo, að flm. séu svo skammsýnir, að þeir haldi, að eignarnám verði aðeins gert, þegar þeim vel líkar? Ætli það sé nú alveg víst`? Ég hef alltaf litið á ákvæði stjskr. um friðhelgi eignarréttarins sem það gengi næst friðhelgi heimilisins. En nú virðast hv. flm. vera á öðru máli, og er þá orðinn meiri hraði á snúningi hlutanna en ég fylgist með, og er líka fjarri því, að ég óski þess. En það er þá gott, að þeir eru búnir að sætta sig við þá töluna, er upp kann að koma í þessu teningskasti framtíðarinnar.

Þetta atriði vil ég leggja sérstaka áherzlu á. Og ég verð að segja, að ég áliti það stórvægilega búningsbót, ef eignarnámsákvæðið væri numið burt úr frv., nema því verði í öðrum verulegum atriðum breytt.

Ég hef leyft mér að bera hér fram rökst. dagskrá í því trausti, að menn vilji fara hér að með forsjá og einnig í því trausti, að bæjarstj. virði samningsleiðina í lengstu lög og fari ekki aðra leið nema tilneydd, en til þess álít ég, að ekki muni koma. Mér dettur ekki í hug að standa í vegi fyrir því, að bærinn fái nauðsynlegt land. Þvert á móti. Ég held, að ég skilji ekki síður þarfir bæjarins en þeir, sem ekki vilja breyta stafkrók í frv. Ef dagskráin verður felld, þá mun ég við 3. umr., eins og ég segi í nál. mínu, freista þess að bera fram brtt. þess efnis að nema burt úr frv. það atriði, er ég álít háskalegast, eignarnámsákvæðið, og um nokkur önnur atriði frv. Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta, en áleit mér skylt að taka það fram, er ég hef nú gert. Síðan verður auðna að ráða, hvernig fer.