16.02.1943
Neðri deild: 59. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Sveinbjörn Högnason:

Herra forseti. — Það er í raun og veru merkilegt, sem kemur fram á hæstv. Alþingi í umr. um þetta mál og aths. við þetta mál, eins og það hefur verið lagt fyrir. Það er eins og jafnvel hér í fámenni okkar úti á Íslandi og þar, sem friðsamast ætti að mörgu leyti að vera á þessum tímum, sem yfir ganga, þá séu víssir menn, sem hafi löngun til þess að leika þann leik, sem nú er verið að heyja um heiminn, þar sem þeir, sem meiri máttar eru, þykjast hafa fullan rétt til þess að fara með þá, sem miður mega sín, eftir því, sem þeim sýnist. Það er eins og formenn okkar hér í bæjarfélagi Rvíkur hafi verið gripnir af einhverri svipaðri mikilmennskutilfinningu eins og einræðisherrarnir, sem þykjast hafa fullan rétt til þess að leggja smáríkin, sem kringum þá eru, undir sig, — þeim (smáríkjunum) til verndar og blessunar(!) Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er alveg eðlilegt áframhald af þeirri pólitísku baráttu, sem tekin var upp hér á landi á síðasta vori, þegar flokkar bæjastéttanna töldu sér svo varinn fisk um hrygg, að þeir gætu boðið sveitamönnum flest. Nú álíta þeir, að þeir þurfi ekki að semja við þá, heldur sé þeirra valdið, hvort sem þeir vilja taka lönd þeirra eða réttindi, sem þeir hafa haft. Þetta er sama stefnan, sem hafin var í íslenzkum stjórnmálum af meiri hl. þingsins á síðasta vori. Og þetta verður ekki síðasta sporið, sem bændur í nágrenni Rvíkur og bæjanna yfirleitt fá að sjá í þessa átt, þar sem þeir, sem telja sig orðið hafa meiri og betri aðstöðu í þjóðfélaginu, ætla að sýna, hvernig þeir ætla að nota vald sitt. Þetta verður ekki síðasta sporið í þessa átt og er ekki það fyrsta. Ég veit líka nú orðið, að hver einasti bóndi á landinu skilur, hvert hér stefnir, því að ég hef aldrei, þegar ég hef komið út um sveitir landsins frá Alþingi, orðið var við, að menn væru jafnalmennt hissa, af hvaða stjórnmálaflokki sem þeir hafa verið, yfir því, að svo ógrímuklædd ósvífni hafi verið borin fram eins og í þessu frv., að af einu bæjarfélagi, sem hefur fleiri þm. og meira vald, sé stefnan sú, að minni sveitarfélög sem í kringum bæinn eru, séu gerð réttlaus, ef hagsmunir bæjarfélagsins og þessara sveitarfélaga rekast á. stað þess að það ætti að reyna að semja og miðla málum, ætlar nú sá sterkari að nota hnefaréttinn. Ég get vel skilið, að þjónar Stalins hér í hv. d. séu með þessu. Og það kemur ákaflega vel heim, sem hv. þm. Siglf. sagði, að víssir menn í Sjálfstfl. væru þessu fylgjandi, vegna þess að vissir menn í Sjálfstfl. eru vinir Hitlers, eða voru það áður en hann byrjaði að ráðast á smáríkin. Þeir voru vinir hans, þó að þeir séu það ekki nú. Þar var sama hugsunin, sem hér er á ferð, að sá meiri máttar ætti yfirleitt alltaf að mega beita þann minni máttar ofbeldi og yfirgangi, hvenær sem honum þætti hagur sinn vera í veði gagnvart þeim, sem minni máttar væri. Mig furðar á því, að það skuli vera hægt í ríki, þar sem lýðræði á að ríkja, af þeim meiri hl., sem telur sig hafa hag af því að breyta sveitatakmörkum og kaupstaðatakmörkum með l. án þess að spyrja viðkomandi sveitarfélag um. Það er þannig í l. um sóknaskipun í landinu, að ekki má breyta takmörkum kirkjusókna, nema báðir aðilar komi sér saman um það. Og ef það færi að ríkja hér á landi, að sveitarfélag, sem telur sig sterkara en annað, eða kaupstaður geti hvenær sem er tekið land af því sveitarfélagi, sem er minni máttar, til að styrkja aðstöðu sína á einhvern hátt, þá vil ég segja við þá hv. þm., sem utan Rvíkur eiga heima, að ef þetta er látið ná fram að ganga og þessi stefna ekki kveðin niður í byrjun, eftir því sem unnt er, þá skeður nákvæmlega það sama hér í sveitarfélögum landsins og skeði í smáríkjunum, þegar þau uggðu ekki að sér og voru hernumin, að þessi yfirgangur, sem hér er stefnt að, gengur lengra og lengra, og við vitum ekki, hver fyrir sig, hvenær kemur að okkar sveitarféla í þessu efni. Við skulum hugsa okkur, að eitthvert annað sveitarfélag gæti með l. fengið því framgengt að taka undir sig helminginn af sveitarfélagi okkar og skildi eftir skika handa okkur og segði: „Þið getið bjargazt af með ykkar sveitarfélag.“ Hvernig ætli mönnum fyndist það? Ég get ekki skilið, að slík réttarvitund sé farin að gagntaka menn svo, að þeir geti aðhyllzt stefnu þessa frv., að gera þann gersamlega réttlausan, sem miður má sín, en ákveða, að rétturinn skuli vera þess, sem betri hefur lífsaðstöðuna. Og mig furðar á því, að þeir, sem telja sig vera málsvara þeirra, sem miður mega sín í þjóðfélaginu, skuli segja, að þetta sé hin rétta aðferð, svona eigi það að vera, þannig eigi að hafa það við þá, sem ekki hafi nógu góða málsvara og eru búnir að sleppa úr höndum sér því áhrifavaldi, sem þeir hafa haft á Alþingi.

Eins og hv. 2. þm. N.--M. tók fram, er það í raun og veru ekki svaravert, sem hv. þm. Siglf. var hér að ræða um mjólkurframleiðslu og annað í sambandi við þetta mál, því að það var svo barnalegt, að það er alveg víst, að hver einasti maður, sem nokkuð þekkir til þeirra mála, getur ekki annað en brosað að slíkri ræðu. Að mjólkurframleiðslan hér í nágrenni Rvíkur hafi minnkað vegna mjólkurlaganna, er ekki skiljanlegt, nema hægt sé að sýna fram á það með rökum, að framleiðendur hafi fengið lækkað verð fyrir mjólkina. En þeir hafa fengið hækkað verðið, en ekki lækkað, og hvernig ætti það að geta orðið til þess að drepa framleiðslu þeirra? En það er rétt, að það er ekki vitað, að nokkur mjólkurframleiðandi hér í nágrenni Rvíkur hafi gefizt upp við framleiðslu sína, nema sá eini, sem hér hefur verið minnzt á og nú á með þessu frv. að hjálpa til að losna við jörð sina. Það er vitað, að það er verið að reyna að selja þessa jörð, sem byggt hefur verið á fyrir of fjár, sem enginn bóndi, sem hefði ætlað sér að lifa af búskap eingöngu, hefði byggt þvílíkt á. Og til þess að geta selt hana sem dýrustu verði þarf Rvík að fá forkaupsréttinn, og það er aðalatriðið í þessu frv. og að koma í veg fyrir, að Mosfellshreppur geti fengið þetta land keypt. En ef Reykjavíkurbær vill fá þetta land keypt, gott og vel, en hvers vegna þarf þá endilega að leggja það undir lögsagnarumdæmi bæjarins? Hver einasti maður, sem þekkir eitthvað til erlendis, í borgum þar og sveitarfélögum, veit, að úthverfi bæja og borga eru oft önnur lögsagnarumdæmi en aðalbærinn eða borgin, og þessir staðir hafa aldrei reynt að leggja undir lögsagnarumdæmi sitt þessi úthverfi, þó að þeir hefðu bolmagn til þess, á sama hátt og Reykjavíkurbær vill gera nú. Í Kaupmannahöfn eru mörg sveitarfélög, sem ná langt inn í borgina, og enginn árekstur hefur verið þar af þeim ástæðum. Það virðist ganga ákaflega vel. Og þannig er alls staðar, þar sem yfirleitt siðmenntaðir menn eigast við um skiptingu í þessum efnum. En það er engu síður þörf á að tryggja félagsheildir gegn yfirgangi í þessum efnum heldur en einstakling fyrir hvers konar yfirgangi. Og þegar búið er að drepa þetta frv., á því að fylgja í kjölfarið frv. um, að ekki sé hægt að breyta takmörkum lögsagnarumdæma, nema báðir viðkomandi aðilar séu kvaddir til og verði sammála um það, en ef samkomulag næst ekki á milli þeirra, þá sé a.m.k. einhver aðili, sem skeri þar úr annar en sá, sem ætlar að hafa allan hagnaðinn af því að ráðast á þann, sem er minni máttar, eins og hér virðist vera að stefnt.

Hv. þm. Siglf. var að tala um viðhorf þeirra Mosfellssveitarmanna í þessu máli og okkar, sem þeim erum sammála, sem viðhorf gróðabrallsmannanna. Ég hélt nú, að hann væri kunnugastur gróðabrallinu, því að sá bær, sem hann er fulltrúi fyrir, hefur lengi haft orð á sér fyrir það, að þar séu mestu gróðabrallsmenn hér á landi og a.m.k. mestir möguleikar til þess í Siglufjarðarkaupstað. Ég hef alltaf skilið það svo, að sá, sem ásælist eignir og fríðindi manna, sé gróðabrallsmaður, en ekki hinn, sem er að verja sig fyrir því. En máske er ég svo fáfróður í þessu, að það sé þannig, að gróðabrallið á Siglufirði, sem hv. þm. Siglf. þekkir bezt, byggist á því, ef maður, sem minni máttar er, lætur ekki umsvifalaust taka af sér það, sem hinn meiri máttar vill taka, — kannske þetta sé gróðabrallið á Siglufirði? En það er alveg gagnstætt því, sem mér hefur verið kennt. En ég játa, að ég er ákaflega fákunnandi í þessum málum. — Vitanlega eru þessar eignir, sem hér er um að ræða, jafnverðmætar fyrir hvern, sem hefur þær undir höndum. Og ef ríkið ætlar ekki að taka ágóðann, sem á því er, að eign hækkar í verði, þá liggur næst, að eigandinn eigi ágóðann fremur en einhver óviðkomandi maður aðvífandi. Það ætti a.m.k. að vera réttlátlegast í augum þeirra manna, sem hrópa hæst um það, að þeir vilji vernda eignarrétt manna. Og það sveitarfélag, sem af einhverjum sérstökum ástæðum fær bætta aðstöðu fyrir það, að lönd hækka í verði, ég fullyrði, að það á meiri rétt til hagnaðarins af þeirri verðhækkun heldur en sveitar- eða bæjarfélag, sem er í námunda við það. Alveg eins og ég teldi sjálfsagt, ef ég ætti jörð og byggi með öðrum nágranna mínum, sem væri á næsta býli við mína jörð, og ef mín jörð hækkaði í verði af einhverjum orsökum, þá teldi ég mig hafa meiri rétt til þess að njóta hagnaðarins af þeirri verðhækkun heldur en nágranna minn, sem byggi við hliðina á mér.

Þá var hv. þm. Siglf. að tala um það, að menn gætu ekki fengið mjólk hér í Rvík nema hálfskemmda og illa með farna og allt eftir því og að það væri yfirleitt ekki forsvaranlegt að framleiða mjólk handa Reykvíkingum nema í nágrenni Rvíkur, og að mjólkin, sem þar væri framleidd, væri miklu betri og heilnæmari heldur en mjólk lengra að, sem mundi vera svo að segja ómeti. Sennilega man þessi hv. þm. ekkert úr þeirri baráttu, sem hefur verið um þessi mál, nema að frá fyrstu árunum, sem sú barátta var háð, 1934 og 1935, virðist hann hafa lært utan að nokkrar greinar eða greinaslitur úr Morgunblaðinu margra ára gamlar. Og það er ill undirstaða í hverju þjóðfélagsmáli að kunna ekki annað um það en nokkrar leifar úr Morgunblaðinu, margra ára gamlar. Það er margsannað, að bæði hvað vitamín og fitu snertir og gæði yfirleitt, þá er mjólkin, sem framleidd er lengra frá bænum, þar sem ræktunarlöndin eru betri, hún er betri heldur en hin, sem framleidd hefur verið að mestu hér af fóðurbæti í grennd við Rvík og í Rvík. Þetta liggur fyrir í opinberum skýrslum frá Rannsóknarstofu Háskólans um mörg ár. (EmJ: Ég veit, að mjólkin frá fjarlægari stöðunum er verri). Þessi hv. þm. (EmJ) hefur stundað vísindalegt nám og er greindur, en og treysti samt betur vísindalegri rannsókn á mjólkinni en tungusmekk hans, sem ég legg ekki ákaflega mikið upp úr. Það er mjög misjafnt, hvað hægt er að reiða sig á smekk manna, og það ætti hv. þm. Hafnf. að þekkja mjög vel, hve misjafnt er, hvað mönnum þykir bragðbezt. (SkG: Sumum þykir brennivín bragðbetra en mjólk). Sumum smakkast brennivín betur en mjólk og sumum betur, að mjólkin sé súr og skemmd heldur en að hún sé góð. Sumir vilja ekki drekka mjólkina volga úr kúnum. Sumum þykir betra að gerilsneyða mjólkina, öðrum þykir betri gerilsneydd mjólk. Það er þannig mismunandi, hvernig smekkur manna er, eitt þykir þessum gott og öðrum hitt. Hvernig smekkur manna er, er engin vísindaleg niðurstaða. (EmJ: Það þarf hvorki til vísindi né smekk, þegar maður sér mjólkina). Þó að hv. þm. Hafnf. sé skýr, treysti ég betur niðurstöðum vísindanna heldur en því, sem hann trúir og honum finnst vera, þó að hann telji sig vísindamann, en ég telji mig trúmann. Um þetta liggja fyrir opinberar skýrslur um rannsóknir á þessu um mörg ár, svo að ekkert þarf um þetta að deila. Enda á þetta sér stað alls staðar, sem eðlilegt er, að mjólk er betri, sem framleidd er þar, sem meiri ræktunarlönd eru, en minna gefið af fóðurbæti og yfirleitt minna af gervifóðri notað við framleiðsluna. Það er ekkert sérstakt fyrir Rvík, að það þurfi að flytja mjólk um 100 km. leið til bæja og borga. Ég hef verið í fáum borgum í öðrum löndum, sem ekki flytja mjólkina úr allt að 150 km. fjarlægð og láta gilda um hana sama verð og mjólk, sem framleidd er nær. Þetta er svo í Þýzkalandi, Danmörku og viðar. Og þó að Reykjavíkurbær legði undir sig með ólögum alla Mosfellssveit, allt Kjalarnes og alla ströndina kringum Faxaflóa, þá er ekki hægt á því svæði að framleiða næga mjólk og mjólkurvörur fyrir Rvík.

En nú ætla ég að spyrja þá, sem telja sig vera fulltrúa þeirra, sem hafa minni peningaráðin í bæjunum: Ef ekki er hægt að fullnægja þörf Rvíkur fyrir mjólk og mjólkurvörur með því, sem þeir telja betri mjólk, þ.e. sem framleidd er í nágrenni bæjanna, og ef menn yfirleitt teldu, að sú mjólk væri betri, hverjir ætli nytu þá þeirrar mjólkur, hvort yrðu það þeir fátæku eða þeir nýríku eða gamalríku í Þessum hv. þm. er það vitanlega ljóst, að það er ekki hægt að fullnægja eftirspurninni á mjólkur- og mjólkurvörumarkaðinum í Rvík með því, sem hægt væri að framleiða í nágrenni Rvíkur. Og ef vísindin sýndu, að sú mjólk reyndist betri, þá er víst, að hún lenti ekki hjá þeim, sem fátækastir eru í bæjarfélaginu. Við þekkjum vel þau viðskiptalögmál, sem því ráða. Þess vegna ættu allir þeir, sem telja sig fulltrúa þeirra fátækari, að vinna að því að tryggja það, að framleiðsla mjólkur fyrir alla bæi á landinu verði sem allra tryggust, svo að á öllum tímum árs sé tryggð nægileg mjólk handa bæjabúum. Og viðkomandi Rvík er ekki hægt að tryggja þetta með öðru móti en því, að Borgarfjörður og austurhluti Suðurlandsundirlendisins séu í verðjöfnunarsvæði Rvíkur. (EmJ: Er ekki bezt að stækka verðlagssvæðið austur fyrir Mýrdalssand?). Ég hef aldrei orðið fyrir eins miklu ónæði eins og þegar mjólk vantar í bæinn. Nú í tvo daga, þegar hætta hefur verið á því, að tepptist um mjólkurflutninga, þá hef ég ekki haft næði á nóttunni fyrir hringingum og fyrirspurnum um það, hvort ekki kæmi nú mjólk. Ég hygg, að það væri ekki síður í þeirra þágu, sem þessi hv. þm. telur sig umboðsmann fyrir, að reynt yrði að hafa verðjöfnunarsvæðið það stórt, að hægt sé sem bezt að tryggja, að þessa vöru skorti ekki, því að bærinn getur ekki án hennar lifað. Og það ætti að vera áhugamál fulltrúa fátækra neytenda, að sem mest sé af mjólk á markaðinum, því að þá er erfiðara að halda mjólkurverðinu uppi. Þess vegna ætti það að vera áhugamál hv. þm. Hafnf., að verðjöfnunarsvæðið væri nógu stórt.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara meira inn í mjólkurmálin í þessu sambandi. En mér virtist hlægilegt, að hv. þm. norðan af landi skyldi ekki þekkja meira inn á þessi mál en raun bar vitni, heldur skyldi hann halda, að þetta frv. væri tengt mjólkurmálinu á þann hátt, sem hann talaði um. Það er tengt því á þann veg, sem hv. 2. þm. N.--M. (PZ) talaði um, að maður, sem bjó þarna á Korpúlfsstöðum, taldi sér arðvænlegra að reka aðra atvinnu. Og þetta er höfuðinnihald frv. Og ég er sannfærður um það, að það er nógu mikið af heilbrigðri dómgreind og réttlætistilfinningu hjá hv. þm. til þess, að dagskrártill. hv. 1. þm. Árn. verði samþ. og reynt að samræma hagsmuni hinnar stóru Rvíkur og hinnar litlu Mosfellssveitar, því að báðar hafa jafnmikinn rétt til að lifa.