30.03.1943
Neðri deild: 86. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (2262)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Finnur Jónsson:

Herra forseti. — Ég hafði búizt við, að hv. frsm. gerði frekari grein fyrir máli þessu en gert hefur verið hér í hv. d. Þetta er mikið deilumál og umfangsmikið. Ég tel, að ekki hafi enn þá verið gerð nægilega ljós grein fyrir máli þessu af hálfu hv. frsm., til þess að þeir, sem ekki eru kunnugir, geti myndað sér um það skoðanir. Frv. virðist fjalla um þrjú atriði aðallega:

1. Hvort Reykjavíkurbær eigi að hafa forkaupsrétt að jörðum, sem liggja utan lögsagnarumdæmis bæjarins. 2. Hvort hann megi leggja þær jarðir, sem hann er þegar búinn að kaupa, undir lögsagnarumdæmið. 3. Hvort bærinn eigi að fá eignarnámsheimild til þess að ná undir sig jörðum, sem liggja utan lögsagnarumdæmis bæjarins.

Það mun hafa verið siður, þegar líkt hefur staðið á, að leitað hafi verið samkomulags við viðkomandi sveitarfélög. Hef ég ekki heyrt, að það hafi verið gert til fulls í þetta skipti, og er þá ekki ástæða til þess, að löggjafarvaldið grípi inn í.

Einhverjar samkomulagsumleitanir hafa farið fram milli Reykjavíkurbæjar og viðkomandi aðila, en upp úr þeim mun hafa slitnað og í staðinn lagt fram frv. það, sem hér er til umræðu.

Sé það svo, að ágreiningur hafi verið um það á milli viðkomandi sveitarfélags og Reykjavíkurbæjar, hvort Reykjavíkurbær gæti fengið hluta úr þessum jörðum, sem honum hafa verið boðnar til sölu, og það hafi verið gert ráð fyrir því, að það atriði yrði lagt fyrir dómstólana, þá lítur út fyrir, að með þessu frv. sé verið að grípa fram fyrir hendur dómstólanna um atriði, sem hefur verið deilumál á milli þessara aðila.

Ég vildi beina því til hv. frsm. meiri hl. allshn., hvort það sé ekki óvenjulegt, að Alþ. grípi með löggjöf inn í mál, sem annars hefur verið álitið, að heyrði undir úrskurð dómstóla.

Í öðru lagi hefur það jafnan verið siður, þegar sveitarfélög hafa lagt undir sig ný lönd, að um það hafa farið fram samningar á milli hreppa, jafnvel þó að Eins hafi staðið á og nú um Hólm og Elliðavatn, að Reykjavíkurbær hefur nú eignarhald á þessum jörðum. Hefðu farið fram samningar á milli viðkomandi sveitarfélaga, sem líkt hefði staðið á um, þá hefði ekki verið talið nauðsynlegt, að gripið hefði verið inn í slíkt af löggjafarvaldinu, nema því aðeins að samningar hefðu ekki tekizt. Nú hef ég ekki tekið eftir því, hvort upplýst hefur verið, að slíkar samningaumleitanir hafa farið fram og hversu langt þeim hefur verið komið.

Um 3. atriðið, viðvíkjandi eignarnámsheimild á Grafarholti, þá er það að segja, að hingað til hefur þurft að liggja fyrir, til þess að eignarnámsheimild yrði framkvæmd, að almenningsheill krefðist að eignarnámsheimild færi fram. Ég hef ekki heyrt færð veruleg rök fyrir því, að Reykjavíkurbæ sé svo mikil nauðsyn að fá þetta Grafarholtsland, að ástæða sé til að láta fara fram eignarnám, eins og gert er ráð fyrir í þessu lagafrv. Það má vel vera, að þessi ástæða sé fyrir hendi, en það væri óneitanlega viðkunnanlegra, að frsm. meiri hl. gerði fyrir því nokkuð gleggri grein heldur en hann enn hefur gert. Það er kunnugt, að Reykjavíkurbær á ekki nema nokkurn hluta þeirra lóða, sem nú eru innan lögsagnarumdæmis hans, og ef það er nauðsynlegt, að Reykjavíkurbær fái eignarnámsheimild á löndum, sem liggja utan lögsagnarumdæmis Rvíkur, hvers vegna koma þá ekki tillögumenn jafnframt með frv. um það að fá einnig eignarnámsheimild á því landi? Mér þætti mikils um vert, ef hv. frsm. meiri hl. vildi leysa úr þessu. Ég hef sagt þetta svona almennt, eins og mér kemur þetta frv. fyrir sjónir. En ef ég væri borgari í Rvík, mundi ég einnig spyrja að því, hvaða nauðsyn væri á því nú á þessum tímum, á meðan allar jarðeignir eru í margföldu verði við það, sem er á venjulegum tímum, að Reykjavíkurbær eignist þessar jarðir. Er það nauðsyn Reykjavíkurbæjar eða er það nauðsyn þeirra gróðabrallsmanna, sem nú hafa eignarrétt á þessum löndum, að losna við jarðirnar, á meðan þær eru í sem allra hæstu verði? Ég vildi biðja hv. frsm. meiri hl. að leysa úr þessu. Mér mundi sem borgara Reykjavíkurbæjar þykja mikils um vert að fá leyst úr þessu. — Mér virðist sem það sé ekki neins einstaks manns meðfæri að reka búskap á þessari Korpúlfsstaðatorfu nema með tapi. Nú mundi Reykjavíkurbær, ef hann eignaðist þessar jarðir, fara að reka þarna búskap, og ef það er rétt, að það sé ekki á valdi einstaks manns að reka þarna búskap nema með tapi, mundi þá ekki vera eins með Reykjavíkurbæ? Er þá ekki nokkuð varhugavert fyrir borgara Reykjavíkurbæjar að gera kaup á þessum jörðum nú, á meðan allt verðlag er uppsprengt, upp á það að fara að reka þarna búskap með taprekstri? Það má segja, að þetta sé mál, sem sér staklega sé viðkomandi borgurum Reykjavíkurbæjar.

En þar sem gert er ráð fyrir því, að löggjafarvaldið grípi á nokkuð óvenjulegan hátt inn í ýmis atriði með þessu frv., þá væri ekki úr vegi að fá þetta nokkuð upplýst, áður en málið gengur til atkv. eftir þessa umr.