30.03.1943
Neðri deild: 86. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (2267)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Jakob Möller:

Ég hef þegar skýrt frá því, að hæstv. forseti tók málið á dagskrá eftir minni beiðni, og ég bar þá beiðni fram fyrir hönd okkar þm. Rvíkur. Mér þykir líka sennilegt, að hæstv. forseti hefði tekið málið á dagskrá án sérstakra tilmæla, enda held ég, að málið græði ekki mikið á því að verða geymt til næsta dags. Þær umr., sem hér hafa farið fram, eru ekkert annað en pex um það, hvort sæmilegt sé að taka málið fyrir á þessum fundi. Þar við bætist svo það, að ein umr. er enn eftir, áður en til úrslita kemur um málið. Ég fyrir mitt leyti og fyrir hönd aðstandenda málsins mótmæli því, að málið verði tekið af dagskrá að þessu sinni.