19.12.1942
Neðri deild: 23. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Sveinbjörn Högnason:

Hv. 7. þm. Reykv. bar fram þá fyrirspurn, hvenær talsmenn þeirra, sem ráða verði á landbúnaðarafurðum hefðu viljað nokkru fórna til þess að stöðva dýrtíðina. Hann er kannske óminnugur á þær þrjár tilraunir, sem hafa verið gerðar, til þess að stöðva dýrtíðina, af þeim mönnum, sem ráða verðlagi á afurðum bænda. Þegar borið var fram hér á haustþinginu frv. til þess að koma í veg fyrir dýrtíðina, voru þeir fyrstir. Þegar gerðardómurinn var settur, brugðust þeir ekki, heldur vildu láta setja allt verðlag fast, og þeir eru þeir einu, sem samþykkja núna að setja verðlagið fast, þó að sjáanlegt sé, að dýrtíðin hækki um rúm 20 stig eftir þetta. Hverjir hafa boðið þetta fram æ ofan í æ nema þeir, vegna þess að þeim er ljóst, hvert stefnir, ef verðlag heldur áfram að hækka. Þegar þessi hv. þm. kvartar undan því, að hann þurfi að gefa 5000 kr. fyrir kýrnytina, ætti hann að muna það, að fyrst, þegar boðið var að stöðva dýrtíðina, var mjólkurlíterinn 75 aura. En annars er þessi mjólkurneyzla hans óeðlilega mikil, og skil ég ekki, að þessi upphæð geti verið svona há, nema hann verzli við einhvern, sem selur mjólkina hærra verði en Mjólkursamsalan.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að loforðið um, að ekki skyldi verða hækkun á landbúnaðarvörum vær í tilgangslaust, vegna þess að það væri bundið samþykki landbúnaðarráðherra. Þetta er eðlilegt, því að hvaða ástæða væri til þess, að bændur hækkuðu ekki vöru sína, ef þær ráðstafanar, sem gerðar eru, verða ekki haldnar. Ef ætlunin er ekki að framkvæma það, nema dýrtíðarráðstafanirnar nái til allra, en það er eins og hv. 2. þm. Eyf. og hv. 7. þm. Reykv. leggi á það megináherzlu að lögfesta verð á landbúnaðarafurðum, hvað sem öðru líður, enda er þetta sá sami sónn, sem hefur svo oft komið fram hjá þeim áður, og þegar hv. 7. þm. Reykv. talaði um, að verðlagið væri svo og svo hátt og það kostaði ekki nema svo og svo lítið að fóðra skepnurnar, þá heldur hann víst, að það sé hægt að framleiða bæði egg og mjólk bara með því að fóðra og það þurfi enga vinnu til. Ég held, að þeir, sem kunnugir eru sveitavinnu, viti, að mestur hluti af tekjum bænda fer í kaupgreiðslur. Mér virðist, að menn, sem ekki hafa meiri skilning á því, sem þeir eru að tala um, en kom fram hjá þessum tveimur þm., ættu ekki að hafa leyfi til að ræða mál, sem snerta landbúnaðinn, svo mikið skilningsleysi og ósanngirni kom fram hjá þeim.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Það er eins og meginatriðið sé, að löggjöfin hafi einhvern sérstakan svip, en ég hélt, að það væri meginatriðið að reyna að ná samkomulagi, þar sem það er hægt. Nú hefur þetta samkomulag náðst, og hvaða ástæða er þá til að koma með till. eins og þessa, sem hv. 7. þm. Reykv. bar fram.