31.03.1943
Neðri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1301 í B-deild Alþingistíðinda. (2276)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég mun, ef hæstv. forseti óskar þess eindregið, flytja mál mitt nú, enda þótt æskilegra væri, að fleiri væru staddir á fundi. Sérstaklega sakna ég hv. meiri hl. allshn., sem hefur mælt með frumv. Að vísu er hv. frsm. meiri hl. mættur, en aðrir ekki.

Þetta mál hefur mikið verið rætt, og ég mun því ekki taka til meðferðar nema fátt eitt.

Margt hefur verið skýrt í málinu, bæði á þskj. hér í hv. d. og í hv. Ed. og enn fremur við umr. málsins, en þó tel ég ýmis atriði óupplýst, sem væri æskilegt að fá skýrð, áður en til atkvgr. kemur, þar sem þetta er mikið ágreinings- og deilumál.

Frsm. meiri hl., hv. þm. Snæf., talaði um það í ræðum sínum, bæði í gær og í dag, að meðal annars væri það óhjákvæmileg nauðsyn fyrir Reykjavíkurbæ að fá ákveðnar jarðir í Kjósarsýslu lagðar undir lögsagnarumdæmi Rvíkur, og færði fram þá ástæðu, að þetta væri nauðsyn til þess að koma í veg fyrir, að vatnsból bæjarins yrði fyrir skemmdum. Hv. þm. lagði mikla áherzlu á þetta atriði. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu fyrir Reykvíkinga að geta búið tryggilega um vatnsbólið, enda þótt. það sé í öðru lögsagnarumdæmi.

Á einu þskj. viðvíkjandi þessu máli, er meðal annars birt bréf frá oddvita Seltjarnarneshrepps, Sigurjóni Jónssyni fyrrv. alþm. Hann ber fram í þessu bréfi f.h. hreppsins mótmæli gegn því, að jarðirnar Elliðavatn og Hólmur verði lagðar undir lögsagnarumdæmi Rvíkur. Í bréfinu segir hreppsnefndaroddvitinn meðal annars á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Elliðavatn hefur bærinn getað notað að vild sinni sem olbogarúm (Lebensraum) borgara sinna alla þá stund, er bærinn hefur átt jörðina. Aldrei hefur komið til neinna árekstra milli hreppsins og bæjarins út af hagnýtingu bæjarins á þessari eignarjörð sinni.“ Enn fremur segir hann, að bærinn telji sig einnig geta eignazt jörðina Hólm og komi þá til að gilda sama um þá jörð og Elliðavatn. Hann segir á þessa leið í bréfinu; „Not jarðanna hefði bærinn eftir þörfum jafnt, hvort sem þær væru í 1ögsagnarumdæmi Reykjavíkur eða í hreppnum. Sú eina ástæða, sem að einhverju leyti gæti réttlætt þá þvingunarlöggjöf, sem hér um ræðir, væri sú, að einhverjir árekstrar hefðu átt sér stað milli hreppsins annars vegar og bæjarins hins vegar um afnot bæjarins af jörð sinni Elliðavatni. Slíkir árekstrar kynnu að geta sýnt fram á einhverja þörf, en naumast nauðsyn, til þess að færa jarðirnar í annað lögsagnarumdæmi. Árekstrana ætti að mega jafna á annan hátt. En slíkir árekstrar hafa ekki átt sér stað, eins og að ofan er framtekið.“

Þetta segir Sigurjón Jónsson í bréfi sínu. Þá er einnig í nál. meiri hl. allshn. í hv. Ed. vikið að þessu sama atriði, en að þessu áliti standa flm. frv., og annar þeirra aðalflm. þess. Þeir segja í nál. sínu, að jörðin Hólmur sé ekki í eign Reykjavíkurbæjar, en samkv. l. frá 1942, sé ríkisstj. heimilað að selja bænum jörðina. Svo segja þeir, að úr þessari sölu hafi ekki orðið, vegna þess að bæði Seltjarnarneshreppur og ábúandi jarðarinnar hafi krafizt forkaupsréttar, ef jörðin yrði seld.

Síðan segja þeir á þessa leið: „Nokkur hluti Seltjarnarneshrepps nýtur vatns úr vatnsveitu bæjarins, og mætti því ætla, að hreppsnefndinni væri áhugamál, að tryggilega væri um þetta vatnsból búið. Er því ekki að efa, að hrepps~nefndin mundi sjá svo um, að svo yrði, ef hún fengi eignarumráð jarðarinnar.“

Það er þannig greinilega yfirlýst af tveimur flm. frv., að það sé ekkert efamál, að hvort sem hreppurinn eða Reykjavíkurbær eigi jörðina, þá verði tryggilega búið um vatnsból bæjarins. Þessi ástæða, sem hv. frsm. meiri hl. allshn. hér í hv. d. færði fram, hefur þannig ekki við nein rök að styðjast. Þetta er bara tilbúin ástæða, enda yfirlýst af flm. frv., að tryggilega verði búið um vatnsbólið, hvort heldur Hólmur er í lögsagnarumdæmi Rvíkur eða Seltjarnarneshrepps. Að búa til ástæðu eins og þessa sýnir, að eigi muni um auðugan garð að gresja, þegar leitað er að rökum fyrir því, að þörf sé að innlima þennan hluta af nágrenni bæjarins í lögsagnarumdæmi Rvíkur. Ég get að vísu fallizt á, að eðlilegt sé, að jarðir, sem eru í eign bæjarins, verði lagðar undir lögsagnarumdæmi hans, ef árekstrar hafa átt sér stað milli viðkomandi hrepps og Reykjavíkurbæjar, en því er ekki til að dreifa, og Reykjavíkurbær getur algerlega notað þessar jarðir eftir vild sinni, þótt þær verði áfram í Seltjarnarneshreppi. Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta vatnsmál, en vil bera fram þá ósk, að hv. frsm. meiri hl. allshn. gæfi mér upplýsingar um tvö atriði, sem ég veit ekki til, að hafi verið upplýst áður (GTh: Það er of seint að óska þess, því að frsm. meiri hl. hefur þegar talað þrisvar við þessar umr.) Ég álit, að það sé ekki of seint, og er þess fullvís, að hæstv. forseti mundi leyfa honum að svara þessum fyrirspurnum. Fyrri spurningin er þessi: Hvað er stórt það landssvæði, sem nú er innan lögsagnarumdæmis Reykjavíkur. Ég hef verið að leita að upplýsingum varðandi þetta, en ekki getað fundið þær. Það væri æskilegt, ef hv. frsm. vildi svara þessu. Enn fremur væri gott að fá að vita, hve mikið bærinn á af lóðum innan lögsagnarumdæmis síns og hve mikið er í eign einstakra manna.

Hin spurningin er þessi: Hve stór eru þau lönd, sem Rvík á í (iðrum lögsagnarumdæmum? Ef upplýsingar fengjust um þetta, þá væri fróðlegt að bera saman þau landssvæði, sem bærinn á, við lönd annarra kaupstaða og kauptúna.

Ég vil ítreka þá ósk mína, að hv. frsm. meiri hl. leiti sér upplýsinga um þetta og láti þær síðan koma fyrir hv. d. Ef til vill gefa þær upplýsingar mér tilefni til frekari umr., en að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að segja fleira um málið.