02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (2281)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Jakob Möller:

Ég held, þveröfugt við það, sem hv. þm. Mýr. virtist álíta, að sá raunverulegi þingvilji í þessu máli komi ekki fram fyrr en við 3. umr. málsins, þ.e. ekki fyrr en búið er að sjá fyrir örlög þessarar dagskrártill., sem hér liggur fyrir. Það er vitað, að ýmsir af þeim hv. þm., sem hafa veitt málinu andstöðu, hafa brtt. í fórum sínum, sem með samþ. þeirrar dagskrártill., sem yfir vofir, alls ekki koma fram. Og þó að nú séu fjarverandi nokkrir hv. þm., breytir það engu um afdrif málsins, þannig að hv. d. hefur málið alveg í hendi sér, þó að það gangi til 3. umr. Ég mótmæli því þess vegna, að þessari umr. verði frestað.