02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (2283)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Pétur Ottesen:

Ég vil mjög taka undir óskir þeirra hv. þdm., sem hafa farið fram á, að afgreiðslu þessa máls verði frestað nú, eins og ástatt er. Það er vitað, að það eru fjarverandi allmargir hv. þm. Og mér finnst, að einmitt þetta mál sé þess eðlis, að það sé ekki aðeins rétt, heldur sjálfsagt, að stilla svo til, að atkvgr. á þessu stigi málsins verði hagað þannig, að viðstaddir þá afgreiðslu séu sem allra flestir af hv. þdm., því að við 2. umr. er venja, að hin raunverulega afstaða til mála komi fram. Nú er það vitað um tvo af þeim hv. þdm., sem eru fjarverandi, að þeir munu koma til bæjarins strax eftir helgina, sennilega á þriðjudag. En um þá, sem fjarverandi eru sökum veikinda, er náttúrlega ekki hægt að segja, hvenær þeir munu geta mætt á fundi hv. þd. Og ef sá veikindafaraldur, sem valdið hefur frátöfum hv. þdm. frá þingstörfum, verður ekki þess valdandi, að þessir hv. þm. verða nema 2–3 daga fjarverandi, þá vildi ég mjög taka undir það, — með sérstöku tilliti til þessa máls, því að það hefur nokkra sérstöðu —, að afstaða til málsins hér í hv. þd. fái sem bezt notið sín.