02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (2285)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Forseti (JJós):

Ég hef reynt að hlusta á báða parta í þessu máli, ef svo mætti að orði kveða. og reynt að liðka mig eftir óskum hv. þm., eins og mér hefur verið hægt og mér hefur virzt rétt vera. Það er nú, eins og vitað er, að ekki er líklegt, að fundur verði að þessum fundi loknum hér í hv. þd. fyrr en eftir helgina. Hins vegar er það vitaskuld alveg rétt, að þingvilji þarf að koma fram í þessu máli sem öðrum, og hann hefur komið fram, að því er hv. Ed. snertir. Það er þá þingvilji þessarar hv. d., sem eftir er að fá fram í dagsljósið. Og þar sem hér er um 2. umr. að ræða, þá ættu að vera möguleikar á því, að þingvilji fyrir endanlegum framgangi málsins gæti komið fram áður en afgreiðslu málsins lýkur endanlega, þó ekki sé frestað málinu nú.

Undir umr. var af hv. þm. Mýr. krafizt úrskurðar forseta um það, hvort ákvæði fyrirliggjandi frv., eða nánar til tekið 4. gr. þess, brjóti í bága við ákvæði stjskr. Út af þessu vil ég leyfa mér að taka fram:

Ef svo er litið á, að skapazt hafi eignarréttur til handa Mosfellshreppi með ákvæðum 2. gr. laga nr. 55/1926, sem verndaður sé af ákvæðum 62. gr. stjskr., þá er á það að lita, að sama gr. heimilar, að taka megi slíkan rétt, ef almenningsþörf krefur. Álitið verður, að um almenningsþörfina dæmi löggjafinn.

Afgreiði Alþ. eignarnámslög, þá er talið, að með samþykkt þeirra sé úr því skorið, að almenningsþörf krefji, og mundu því dómstólarnir ekkert athuga um það atriði. Þá ákveður tilvitnuð grein stjskr., að fullt verð skuli koma fyrir þá eign, sem þannig er tekin. Almenn lög víkja fyrir ákvörðum stjskr.

Þótt afgreidd væru lög frá Alþ., sem segðu, að ákveðin eign skildi af hendi látin og ekkert verð kæmi fyrir, þá hefði slíkt ekkert gildi, að því er bætur til eigandans snerti. Sá, er slíkum órétti væri beittur, gæti leitað til dómstólanna og fengið sér tildæmdar fullar bætur skv. fyrirmælum 62. gr. stjskr. Sama mundi gilda, þótt engin verðgreiðslufyrirmæli væru í eignarnámsl.

Bótarétturinn er stjórnarskrárvarinn, og almenn lög geta hvorki rýrt gildi hans né fellt hann niður.

Ef talið er, að með fyrirliggjandi frv. til laga um stækkun lögsagnarumdæmis Rvíkur sé felldur niður lögvarinn eignarréttur (forkaupsréttur) Mosfellshrepps, þá fullnægir frumvarpið, ef að lögum verður, skýlausum ákvæðum stjskr. um eignarnám, því að þá liggja fyrir lög, sem telja, að almenningsþörf krefjist þessarar stækkunar lögsagnarumdæmis Rvíkur, og þótt þau lög gerðu ekki beinlínis ráð fyrir því, að Mosfellshreppur fengi bætur fyrir forkaupsréttarsviptinguna, þá er bótarétturinn varinn, eins og áður segir, í ákvæðum stjskr. sjálfrar, svo fremi dómstólarnir líta svo á, að bætur skuli greiða.

Með tilvísun til þess, er hér hefur sagt verið, er það úrskurður minn, að 4. gr. fyrirliggjandi frumvarps telst eigi brjóta í bág við ákvæði stjórnarskrárinnar.