07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (2288)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. — Eins og hv. þm. G.-K. tók fram í ræðu sinni, þá er þessi brtt., sem sá hv. þm. og ég flytjum, árangur af samkomulagsumleitunum milli Mosfellshrepps annars vegar og forráðamanna Reykjavíkurbæjar hins vegar, og hefur þannig af hálfu þessara aðila náðst samkomulag um þessa deilu. Ég tel það vist, að hvorugur aðili sé alls kostar ánægður með þessa lausn, og er það vottur þess, að hér hefur verið farinn meðalvegur í þessu deilumáli. Samkv. þessu hefur hreppsnefnd Mosfellshrepps fallizt á að láta af hendi þær jarðir, sem næstar liggja eða þar sem byggð Reykvíkinga er farin að festa rætur, og jarðir sem bærinn hefur eignazt, t.d. Gufunes og Korpúlfsstaði. — Hreppsnefndin taldi eðlilegt, að þar sem bærinn er orðinn eigandi þessara jarða, þá verði þær fluttar inn í lögsagnarumdæmi hans, því að annars gæti komið til árekstra milli hinna tveggja sveitarfélaga, og á þeim árekstrum mundi Mosfellshreppur sízt hafa grætt. — Þetta samkomulag sýnir, að Mosfellshreppur vill líta með sanngirni á þarfir bæjarins til jarðakaupa, en aftur á móti hefur hreppurinn haldið fast við þá kröfu sína, að Varmá og Lágafell verði áfram í lögsagnarumdæmi hreppsins, vegna þess að hreppnum er mikilsvert að hafa þessar jarðir áfram til þess að geta starfað sem sjálfstætt hreppsfélag, og enn fremur eru hreppamörkin þarna eðlileg.

Það er ekki sársaukalaust af mér sem hreppsnefndarmanni í Mosfellshreppi að þurfa að bera fram hér á Alþ. till. um, að svona margar jarðir verði teknar undan hreppnum, en ég hygg, að þetta sé sú heppilegasta lausn á málinu, sem um er að ræða, því að eigi verður spornað við því, að Rvík færist út.

Ég vil þakka þeim hv. þm., sem hafa tekið málstað hreppsins, og vona, að hv. dm. geti fylgt brtt. á þskj. 672, sem við hreppsnm. í Mosfellshreppi álitum, að sé heppilegasta lausnin nú og vonandi einnig fyrir framtíðina.