07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1308 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. — Meiri hluti allshn. hefur ekki haft tækifæri til að athuga þessar brtt., þar sem þeim var fyrst útbýtt á þessum fundi, og get ég því ekki lýst afstöðu meiri hl. til þeirra, en ég fyrir mitt leyti er þeim samþ.

Brtt. eru, eins og hv. 1. flm. þeirra gat um. í þá átt, að hreppurinn heldur jörðunum Varmá og Lágafelli, en í stað þeirra kemur jörðin Reynisvatn og jarðarhlutinn Hólmsheiði. — Eins og ég lýsti yfir við 2. umr., þá vorum við fylgismenn frv. fúsir til þess að taka til greina brtt. við 3. umr. Hv. þm. Mýr. sagði, að Mosfellshreppur hefði sýnt mikla lipurð í málinu, og er það rétt, en forráðamenn bæjarins sýndu eigi síður lipurð með því að slá af tvær jarðir, þrátt fyrir það að atkvgr. hefur sýnt, að hægt var að koma frv. í gegn. Fyrst farið er að minnast á samningsvilja Mosfellshrepps, þá ber ekki síður að geta þess, að af hálfu bæjarins var mikill vilji í þá átt að leysa málið á samningsgrundvelli.

Viðvíkjandi orðum hv. 1. þm. Árn. um forkaupsréttinn, þá eru dæmi þess, að eignarréttur hefur verið tekinn eignarnámi, og er það meiri skerðing en viðvíkjandi forkaupsrétti.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en ég mun greiða brtt. atkv.