08.04.1943
Efri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1310 í B-deild Alþingistíðinda. (2299)

37. mál, lögsagnarumdæmi Reykjavíkur

Frsm. minni hl. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Þegar frv. þetta, var til meðferðar hér í þessari hv. d. við fyrri umferð, þá spurðist ég fyrir um það og beindi því til þeirra, sem fyrir þessu máli stóðu, hvort fram hefðu farið ýtarlegar tilraunir til þess að koma á samkomulagi milli Rvíkur annars vegar og Mosfellshrepps og Seltjarnarneshrepps hins vegar. Mér var þá sagt, að ýtarlegar samningatilraunir hefðu farið fram og að ekki væri hægt að fá samninga fram um málið. Ég vildi véfengja þetta og láta frekari samningaumleitanir fara fram. En frv. var samt sem áður afgr. héðan úr d. án þess og til hv. Nd. Meðan málið var í Nd., var gerð ýtarleg tilraun til þess að fá samkomulag í málinu. Sú tilraun hefur að vísu farið fram með nokkuð öðrum hætti en æskilegt hefði verið, sérstaklega vegna þess að annar samningsaðili átti í raun og veru ekki um annað að velja en ganga að þeim kostum, sem honum voru boðnir af Reykjavíkurbæ, vegna þess að ef þeir Mosfellssveitarmenn hefðu ekki gengið að þeim kostum, hefði frv. verið samþ. í Nd. óbreytt. En nú er með þessum hætti komið samkomulag á í málinu, sem hér er sagt, að fulltrúar Rvíkurbæjar uni vel við og að forsvarsmenn Mosfellshrepps vilji fyrir sitt leyti þola heldur en það, að frv. hefði náð fram að ganga óbreytt. Mosfellsshreppur hefur fengið að halda þarna nokkru landrými, sem hann lagði áherzlu á að fá að halda innan hreppsins. Ég fyrir mitt leyti mun eftir atvikum, eins og komið er, ljá atkv. mitt til þess, að frv. nái fram að ganga, eins og það liggur hér fyrir nú, vegna þess að ég tel, að eins og málið er komið, sé það það heppilegasta, sem Mosfellshreppur hafi getað út úr þessu máli fengið, með þeirri veiku aðstoð, sem málstaður hans hafði hér í þinginu. En ég fylgi þessu máli í trausti þess, að Reykjavíkubær láti hér staðar numið og að bærinn hafi hér fengið kröfum sínum fullnægt, en muni ekki koma síðar til þess að fá frekari lönd úr nágrannahreppum sínum. Og ég vil beina þeirri fyrirspurn til fulltrúa þeirra aðila, sem að samningunum stóðu, hvort það sé ekki réttur skilningur hjá mér, að Reykjavíkurbæ sé fullnægt með afgreiðslu frv., eins og það liggur fyrir, og hvort nágrannar bæjarins megi treysta því, að ekki verði gerðar nýjar kröfur af hálfu bæjarins á hendur þeim. Ég óska sérstaklega eftir að fá einhverjar ákveðnar yfirlýsingar um þetta af hálfu sjálfstæðismanna og sósíalista, vegna þess að það eru þeir, sem að þessu samkomulagi standa. — Með því að þessum fyrirspurnum mínum er ekki svarað, þá lít ég þannig á, að þögnina beri svo að skilja, að inn á fyrirvara minn. sé gengið.