15.03.1943
Neðri deild: 75. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Mér er ljúft að svara fyrirspurnum hv. þm. N.-Þ. N. hefur ekki athugað þá reglugerð, sem nú gildir fyrir kennaraskólann. Hún var samin 1933, og upp í þá reglugerð voru teknar ýmsar umbætur og viðaukar, sem síðan hefur verið farið eftir. Mér er ekki kunnugt um, að samin hafi verið reglugerð. sem fylgja skyldi, ef frv. yrði að l., en ég hygg, að frv. sé sniðið með það fyrir augum að fullnægja þeim ákvæðum, sem farið er að framfylgja í rekstri skólans.

Því, sem fram kom hjá hv. þm. um undirbúningsdeild, vil ég svara þannig, að ég lít svo á að ekki sé um undirbúningsdeild að ræða, því að tilhögunin verður að vera þannig, að kennslunni verður dreift meira en nú er á milli bekkja og aukin í einstökum greinum, einkum kennsluæfingum, íþróttum og íslenzku. Alþ. hefur þegar á undanförnum árum sett lagaákvæði, sem setja skólum skyldur á herðar, t.d. aukið nám í íþróttum og handavinnu. Tíma til þessa verður annaðhvort að taka aukalega, eins og farið er fram á í frv., eða skerða námið í öðrum greinum. Það vakir fyrir formælendum málsins að hafa ekki undirbúningsdeild, heldur auka námið með það fyrir augum, að nægur tími fáist til kennslu í þeim greinum, sem sett hafa verið lagaákvæði um á undanförnum árum.

Ég vil þá víkja að fyrirspurn hv. þm. um húsnæði skólans. Hv. þm. álítur, að eins og húsnæði skólans nú er háttað, sé ekki hægt að framkvæma þær breyt., sem farið er fram á með frv. Ég vil minna á, að það hafa verið reknir 4 bekkir í kennaraskólanum, án þess að skólinn hefði allt skólahúsið til umráða. Svo var það 1933–34. Þá störfuðu 4 deildir, því að efnt var til sérstaks bekkjar fyrir kennara utan af landi, sem höfðu ekki próf. Þá var og í húsinu Gagnfræðaskóli Rvíkur, sem er nú farinn þaðan. Það er auðvelt að búa svo um, að húsnæðið nægi, þó að einn bekkur bætist við. Mér er og kunnugt um, að formælendur málsins hafa í huga, að til bráðabirgða mætti taka íbúð skólastjóra, ef í nauðir ræki. Hitt er annað mál, að það hlýtur að reka að því, að koma þurfi upp nýrri og vandaðri byggingu fyrir kennaraskóla Íslands. Húsið er gamalt timburhús, og ég fellst á, að inn í frv. mætti koma breyt., sem gæti orðið til bóta skólanum á þennan hátt.