07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (2341)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Magnús Jónsson:

Ég skal nú ekki orðlengja þetta meira. Ég vildi aðeins staðfesta fskj. það frá fræðslumálastjóra, sem fylgir þessu frv.

Fyrir kennslumálaráðuneytinu lá í sumar erindi um breyt. á reglugerð kennaraskólans, sent einkum var í því fólgin að lengja skólanámið raunverulega um eitt ár með stofnun undirbúningsdeildar við skólann, því að ekki var talið, að hægt væri lengur að koma öllu námsefni skólans fyrir í þremur ársdeildum. Þessi leið var valin, þar eð lagafyrirmæli giltu um tölu ársdeildanna við skólann, og var þá helzt að bæta við undirbúningsdeild.

Ég var þessu efnislega samþykkur og vildi feginn verða við þessum fram komnu óskum, seni studdar voru af kennurum, fræðslumálastjóra, skólastj. og fleirum. En með reglugerðarbreytingu þeirri, sem farið var fram á, þótti mér gengið á anið við lög skólans og vildi heldur, að frv. kæmi fram um þetta í þinginu.

Sannleikurinn er sá, að þetta er ekki nema að nokkru leyti breyting. Það er verið að sníða skólanum ný föt. Þegar litið er á kennarastéttina og það mikla vald, sem hún hefur yfir að ráða í landinu, og að nú alveg nýlega hefur hún fengið kjarabætur, þá hljóta menn að sjá, að gera verður harðari kröfur til menntunar kennaranna.

Ég vil leggja þessu frv. liðsinni og vildi ekki, að þessari 2. umr. lyki, án þess að ég gerði grein fyrir því, sem gerðist í þessum málum, meðan ég var starfandi í kennslumálaráðuneytinu.