07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1322 í B-deild Alþingistíðinda. (2342)

154. mál, Kennaraskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. — Það eru aðeins fá orð, áður en atkvgr. fer fram.

Hv. þm. S.-Þ. lagði enga áherzlu á, að dagskrártill. sín yrði samþ. Sagði hann hana aðallega fram komna til þess, að einhverjum aðfinnslum yrði komið við.

Frá hv. þm. Barð. hefur komið fram brtt. við 5. gr. frv. (2. tölul.) Vill hann orða 2. tölul. öðruvísi og fella niður ákvæði um, að 1ýti hindri nemendur frá inntöku í kennaraskólann. Þetta ákvæði er alveg nýtt, og aflaði ég mér upplýsinga um það hjá skólastjóranum. Hann sagði uppeldisfræðinga leggja áherzlu á, að lkamslýti kennara hefðu vond áhrif á börnin og gerðu hann þannig óhæfan til kennarastarfa. Annars geri ég ekki ráð fyrir, að því ákvæði yrði fylgt út í æsar.

Þá vill hv. þm. Barð. fella niður 5., 6., 8. og 11. gr. frv. og láta ákvæði um inntökuskilyrði, próf, umsjón o.fl. koma í reglugerð.

Ég hygg, að það sé venja, að úr eldri reglugerðum séu tekin aðalatriðin og sett inn í lögin, og álít ég, að það sé til bóta að hafa þessi ákvæði í lögum fremur en í reglugerð. Hygg ég, að rétt sé að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir.

Víðvíkjandi gerbreytingu kennaraskólans, eins og hv. þm. S.-Þ. komst að orði, vil ég taka fram, að ég álit vafasamt að stiga það spor. Það form, sem nú er á skólanum, er að sprengja utan af sér, en ég hygg, að ekki sé ástæða til að gerbreyta fyrirkomulaginu. Frv. miðar að því, að kennaraskólinn verði sex ára skóli, og er hann þá kominn í það horf, sem heppilegast er talið á Norðurlöndum, og svarar þannig fyllilega til þeirra.

Vil ég eindregið mæla með því, að frv. verði samþykkt óbreytt.