02.04.1943
Neðri deild: 89. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1324 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

170. mál, síldartunnur

Flm. (Finnur Jónsson):

Herra forseti. — Frv. þetta er um frestun á framkvæmd síldartunnulöggjafarinnar. En síldartunnulöggjöfin var sett til þess að koma á meiri vöndun á síldartunnum, bæði þeim, sem smíðaðar eru hér í landinu, og þeim, sem eru innfluttar. Nú hagar svo til, að hvorki eru smíðaðar neinar síldartunnur hér, eins og stendur, og ekki er heldur hægt að fá þær innfluttar. Og það er ekki um annað að gera en að reyna að nota þær tunnubirgðir, sem til eru í landinu. Og vegna þess, hve tímarnir eru óvenjulegir, hefur síldarútvegsn. farið fram á það við okkur flm. þessa máls, að við flyttum þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Ég tel, að þar sem nú er orðið mjög áliðið þings, þá sé ekki ástæða til að setja þetta mál til n., því að það virðist í raun og veru ekki um neitt annað að gera heldur en að fresta þessari löggjöf. Og ef það yrði ekki gert, gæti það orðið til þess, að ekki yrði hægt að salta í síldartunnur, sem nú eru til í landinu. Vil ég því óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr. án þess að það fari til n.