08.04.1943
Efri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

170. mál, síldartunnur

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er komið frá hv. Nd. og var flutt þar af hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Vestm. Eins og kunnugt er, er hv. þm. Ísaf. einn í þeirri n., sem hefur hingað til fjallað um verkun síldar, og er því þessu máli mjög kunnugur. Þessi ákvæði, sem hér er farið fram á að fresta framkvæmd á, eru um það, að allar síldartunnur skuli vera af vissu máli, þ.e. rúma visst mál. Nú er litið svo á af hv. flm. þessa frv., að þessum ákvæðum sé ekki hægt að framfylgja nema jafnvel til tjóns fyrir þá síldarsöltun, sem kynni að geta átt sér stað í landinu, meðan styrjaldarástandið er. Og er því farið fram á, að frestað sé framkvæmdum á þessum ákvæðum l., meðan svo stendur. Þetta virðist vera alveg augljóst mál, þannig að sjálfsagt sé að veita þessa frestunarheimild. Því að eins og l. um síldar tunnur eru nú og ef út af þeim má ekki bregða, getur sá, sem þar á hlut að máli, nefnilega löggjafinn, bakað sér ábyrgð, sem alls ekki er hægt að forsvara.

Ég held því, að það geti ekki verið neitt ágreiningsmál, að það sé sjálfsagt að veita þessa undanþáguheimild með því að samþ. þetta frv., sem er aðeins um það að fresta framkvæmd l. um síldartunnur, meðan núverandi styrjaldarástand ríkir. Sjútvn. er því öll sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt.