15.03.1943
Neðri deild: 75. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1328 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

145. mál, tollskrá o.fl.

Pétur Ottesen:

Það hefur verið minnst á það hér, að eðlilegt væri, eins og nú horfir um hraðfrystihúsin, að þau væru látin njóta þeirra beztu tollkjara, sem unnt væri að veita þeim, því að það er vitanlegt, að með því verðlagi, sem nú er á fiskinum, og þeim kostnaði, sem er við það að hraðfrysta fiskinn, er a.m.k. nokkur uggur í mönnum um það, hvort þessi starfsemi geti haldið áfram eða ekki, Þetta var það, sem vakti fyrir okkur með því að hreyfa þessu hér við 1. umr. þessa máls, þar sem eingöngu var farið fram á að undanþiggja innflutt efni í þessar umbúðir ákvæðum tollskrárinnar. Það veltur á allmiklu fyrir hraðfrystihúsin að mega nota pappakassa í staðinn fyrir trékassa, og ef til vill felur það í sér ásamt annarri breyt., sem tókst að fá gerða í þessu máli, möguleika fyrir því, að nú eru nokkur hraðfrystihús starfandi í þessu landi. Án þeirra breyt. og að óbreyttu ástandi, mundi ekkert frystihús taka til starfa. Það skiptir dálitlu, hvort hraðfrystihúsin eiga að borga 8% toll eða þau verða alveg laus við tollgreiðslu, sem yrði ef þetta næði til kassa, sem væru fluttir inn í þessu skyni. Með sérstöku tilliti til þessa og vegna þess, hve óvænlega horfir rekstri hraðfrystihúsanna, ætla ég að leyfa mér að bera fram brtt. um, að aftan við 1. gr. bætist: „svo og af pappakössum, sem notaðir eru í sama skyni“, — og ætlast ég til, að undanþága þessi taki jöfnum höndum til pappa og límpappa, sem notaður er til að búa til þessar umbúðir, og til pappakassa, sem fluttir eru inn. Mun ég afhenda hæstv. forseta þessa brtt.