19.12.1942
Efri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Hv. Þingdeild. — Eins og hv. þm. er kunnugt, hefur þetta frv. legið fyrir hv. Nd. í dag og hefur verið afgreitt þaðan með afbrigðum í því formi, sem það hefur nú, er það kemur fyrir þessa hv. d. Frv. var athugað í allshn. Nd. og þá jafnframt allshn. þessarar hv. d.

Ég verð að þreyta hv. þingd. með nokkrum endurtekningum, að því er þetta mál snertir. Eins og hæstv. for seti tók fram í stefnuskrárræðu sinni, telur ráðuneytið höfuðatriði sitt vera það að vinna bug á dýrtíðinni, sérstaklega með því að setja skorður við frekari aukningu verðbólgunnar. Í samræmi við það hefur ríkisstj. lagt fram þetta frv., sem felur í sér heimild handa henni til að festa verðlag á vörum. Ríkisstj. telur þessa heimild óhjákvæmilegt skilyrði þess, að unnt verði að hafa hemil á verðbólgunni. En henni er eigi að síður ljóst, að þetta er ekki einhlítt til að halda öllu í skefjum þennan tíma, sem um er að ræða. Þetta frv. tekur t.d. ekki til þeirra vörutegunda, sem verðlag þeirra er ákveðið með sérstökum l., og það telur heldur ekki til grunnkaups manna. En frv. væri lítils virði, ef ekki væri tryggt um leið, að verðlag í þessum greinum breyttist ekki á því tímabili, sem þar er tiltekið. Ríkisstj. hefur hins vegar talið sig hafa fengið tryggingu fyrir því. Hún hefur fengið hjá kjötverðlagsn. yfirlýsingu um það, að kjötverð skuli ekki hækka til febrúarloka. Sams konar yfirlýsing hefur fengizt frá Grænmetisverzlun ríkisins og mjólkurverðlagsn. um þær vörur, er þessar stofnanir eiga að fjalla um. Þá hefur stj. fengið umsögn frá Alþýðusambandi Íslands, þar sem talið er öruggt, að kaup muni ekki hækka á þessu tímabili.

Ráðuneytið leggur áherzlu á það, að þetta frv. hafi ekki í för með sér aukaútgjöld fyrir ríkissjóð og telur það ekki heldur nauðsynlegt. Hins vegar lýsir það yfir því, að ef slíkar greiðslur skyldu reynast nauðsynlegar, þá muni hún ekki grípa til þeirra nema í samráði við Alþ.

Þá leggur ráðuneytið áherzlu á nauðsyn þess, að verðlagseftirlitið sé sem fullkomnast og mun gera það, sem í þess valdi stendur, til þess að svo megi verða.

Ráðuneytinu er áhugamál, að þetta mál verði afgreitt að fullu með afbrigðum í dag, því að það vill geta hafizt handa strax um framkvæmd aðalatriðanna í þessu máli.