09.04.1943
Efri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (2392)

145. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. (Haraldur Guðmundsson):

Herra forseti. — Samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir, að þau ákvæði l. um tollskrá o.fl., sem ákveða endurgreiðslu á tollum, verði víkkuð nokkuð frá því, sem nú er. Samkv. gildandi l. er heimilt að endurgreiða toll af kassavið í umbúðakassa. En nú upp á síðakastið hefur sú breyt. á orðið, að hraðfrystur fiskur er yfirleitt fluttur út í pappakössum í stað trékassa. Er því farið fram á, að þau ákvæði, sem áður náðu til efniviðar í trékassa, verði nú einnig látin ná til pappa og límbanda, sem notuð eru í umbúðir utan um fisk. Fjhn. er sammála um að mæla með því, að þetta frv. verði samþ., en einstakir nm. hafa óbundnar hendur um brtt., sem fram er komin á þskj. 629, þar sem gert er ráð fyrir, að endurgreiðslan verði látin ná til tilbúinna kassa. Eftir upplýsingum, sem fyrir hendi liggja, nemur tollur af þeim tilbúnu kössum, sem um er að ræða í þessu sambandi, 8% verðtolli. Því að þeir kassar, sem þar um ræðir, munu yfirleitt vera vaxbornir að innan og falla því undir sama verðtollsflokk og smíðaefni, en ekki eins og tilbúin vara. Meiri hl. fjhn. hefur ekki getað fallizt á að mæla með þessari brtt., en telur, að sá tollur, sem þar er um að ræða, 8% af innkaupsverði, sé ekki það mikill, að ástæða sé til þess þeirra hluta vegna að hverfa frá þeirri stefnu, sem upp hefur verið tekin á Alþ. að gera nokkurn mun á tollum á efni til iðnaðar og fullunnum vörum, sem unnar eru af erlendum mönnum. Og ef á að tollleggja þær vörur fyrir innlendan iðnað, þá verður ekki farið skemmra í sakirnar heldur en að setja 8% toll á vörurnar. Hins vegar vill n. taka fram og beina því mjög eindregið til þess ráðh., sem fer með þessi mál í landinu, að þess sé gætt, að þau fyrirtæki, sem búa til pappakassa hér á landi, geti á engan hátt notað aðstöðu sína til þess að selja kassana dýrara heldur en nauðsyn krefur. Og það verður að sjálfsögðu að gæta þess, að verðlagseftirlitið og sá ráðh., sem þar hefur yfirumsjón yfir framkvæmdum, sjái um, að svo sé jafnan gert. Það er því till. meiri hl. n., að frv. verði samþ. óbreytt. En einstakir nm. hafa óbundnar hendur um brtt., sem fram koma.