19.12.1942
Efri deild: 21. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (242)

85. mál, dómnefnd í verðlagsmálum

Haraldur Guðmundsson:

Í raun og veru er mismunur á núgildandi l. í verðlagsmálum og á þessu frv. hér ekki verulegur. Þó mætti segja, að það væri einkum tvennt, sem á milli bæri. Í frv. stendur, að dómn. eigi að starfa að fyrirlagi ráðuneytisins. En ég lít svo á, að þetta vald hafi alltaf verið hjá ráðuneytinu, og gat það því hvenær sem var skipt um dómn., ef því líkaði ekki ráðstafanir og gerðir n., þar sem n. var skipuð um óákveðinn tíma. Hitt atriðið er það, að samkv. núgildandi l. þarf að auglýsa þær vörur, sem verðlag dómn. náði til, með sérstakri auglýsingaskrá, en með þessu frv. er gert ráð fyrir, að þetta nái yfir allar vörur, og er það að mínum dómi miklu réttara, að svo sé. En eins og ég sagði, þá er hér ekki um neinn verulegan mun eða efnisbreytingu að ræða frá því, sem þegar er í gildi með núgildandi l. um dómn. í verðlagsmálum. Mun ég þó greiða frv. þessu atkv. mitt, þar eð ég tel það til bóta. Um hin auknu störf dómn. nægir mér að vitna til ummæla StJSt í Nd.

Ég tel það rétt, að hv. d. geri sér það ljóst, að hér er ekki um neina stórvægilega breyt. í dýrtíðarmálunum að ræða, heldur er hér aðeins verið að gera framkvæmd fyrri ráðstafana auðveldari. En það er svo enn sem fyrr, að allt er komið undir röggsemi ríkisstj., hversu það tekst að halda á þessum málum og fylgja fram lagaákvæðum. — Þetta vil ég, að komi hér skýrt fram.

Ég álít það rétta stefnu hjá ríkisstj. að byrja a því að kosta kapps um að stöðva dýrtíðina, og það á því að lánast að stöðva hana með frv. þessu um takmarkaðan tíma, en heldur ekki lengur, því að það segir sig sjálft, að fyrr en varir missa þessar ráðstafanir hald á dýrtíðinni, ef ekkert frekar verður að gert, m.a. þegar erlendar vörur verða dýrari og dýrari eftir því sem á líður. Hv. þm. Barð. var að drepa á það, að ekki væri nein hætta á, að það þyrfti einu sinni að bíða svo lengi, eftir verðhækkuninni, hann gefur jafnvel í skyn, að menn megi eiga von á smáskæruhernaði af hendi verzlana von bráðar.

Mér þótti gott að heyra það frá hæstv. fjmrh., að ekki yrði gripið til þess að veita fé úr ríkissjóði til þessara ráðstafana nema því aðeins, að Alþ. yrði spurt um það og léði samþ. sitt til þess. Ef þessi yfirlýsing hefði ekki komið fram, mundi ég hafa orðið í vafa um, hvort ég ætti að veita þessu frv. fylgi mitt.

Þá vil ég benda á sjónarmið, sem ekki hefur enn komið fram í umr. Ef l. verða samþ. og framkvæmd eins og ráðh. ætlar, þá verður afleiðingin sú, að opinbert verð helzt óbreytt, en fari svo, að allt lendi í handaskolum, að raunveruleg hækkun eigi sér stað, af því að ekki sé litið eftir, að það haldist óbreytt, þá liggur í augum uppi, að l. koma ekki að notum, og leiðir það þá af sjálfu sér, að l. verka öfugt við það, sem þeim er ætlað að verka. Þetta tel ég rétt að benda á, og verðum við að fylgjast stöðugt með til þess að koma í veg fyrir, að slíkt beri að höndum.

Mig langaði til að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig bæri að skilja það atriði í 1. gr. frv., sem fjallar um vöruverð á hverjum stað, þar sem verðlagið er mjög breytilegt jafnvel innan takmarkaðra svæða, en þetta er mikilvægt atriði.

Ég vil geta þess, að fylgi Alþfl. við þetta frv. byggist á því, að hér sé aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem gefi nauðsynlegt tóm til frekari og róttækari ráðstafana, því að það segir sig sjálft, að þessi ráðstöfun ein hrekkur skammt til að ráða bót á þeim vandamálum, sem við erum að glíma við, og að því leyti er ég sammála hv. þm. Barð. En það er mér óskiljanlegt með öllu, hvernig þessi sami þm. getur mælzt til þess, að ríkisstj. festi vísitöluna í 260 stigum, því að ég veit ekki til þess, að hún geti það með neinu móti. Ummæli hans í þá átt, að sú hin lofsverða tilraun, er gerð var með setningu gerðardómsins í jan. s.l. hafi strandað á þegnskaparleysi stórrar stéttar, þá verð ég að segja það, að þau ummæli hans eru þau óviturlegustu og ósanngjörnustu, er sögð hafa verið í þessari d., og sýna, að hann hefur ekki gert sér hina minnstu grein fyrir þeirri orsök, er varð til þess að knýja fram afnám gerðardómsins. Ég ætla ekki að fara að ræða það mál hér í þetta sinn, enda er það eða ætti að vera óþarfi, því að allir víta, að á meðan aðrar stéttir hrifsuðu til sín stríðsgróðann, þá sat verkalýðsstéttin við sömu og óbreyttu grunnlaunin fram til ársins 1941 og til þess tíma við mjög skert grunnlaun. Því var svar þeirra óhjákvæmilegt við þeim verknaði, sem gerðardómurinn var.

Ég býst við, að það sé rétt, að ríkisstj. verði að vera viðbúin að mæta ýmsum erfiðleikum á meðan l. standa yfir. E.t.v. hættir einhver kaupmaður að selja vöru sína. Þá getur stjórnin farið að flytja hana inn. Ég man ekki betur en hér á sínum tíma væri hótað að hætta að flytja inn steinolíu, Þá flutti ríkið hana sjálft inn, og verðið á henni varð lægra en áður. Ég held, að ríkisstj. þurfi ekki að blikna eða blána þótt þetta sé nefnt. Þetta er aðeins bending. Sjálfsagt hefur hún á prjónunum einhverjar ráðstafanir til að mæta slíkum erfiðleikum. Ég tel því óþarfa af hv. þm. Str. að vera með sérstakan kvíðboga, þótt kaupmenn kunni að taka vörur úr umferð. Hv. þm. sagði einnig í ræðu sinni, að þetta væri í fjórða skifti, sem bændur byðu, að hætt væri að hækka verð á vörum sínum. Ég álít, að ég sé ekkert óminnugri en aðrir, og ég man, þegar þetta fyrst kom fyrir. Það var haustið 1941, og kom, eftir að búið var að hækka flestar landbúnaðarafurðir, ekki af bændurn sjálfum, heldur af verðlagsn. Þá buðust bændur til að hætta að láta verðið hækka, ef. verð á öðrum vörum hætti einnig að hækka. Ég get ekki látið hjá líða að taka fram, að við verðum að játa, að það er einmitt verðlagning landbúnaðarafurða í landinu, sem á mesta sök á dýrtíðinni í landinu og hvernig komið er.

Mig langar til í sambandi við þetta frv. og þá einnig í sambandi við ummæli hv. Str. að beina þeirri fyrirspurn til hv. fjmrh., hvort hann hefur gert sér ljóst, hvaða skuldbindingar hvíla nú þegar á hv. ríkisstj. um greiðslur á verðlagsuppbót til bænda. Á sl. þingi var samþykkt að fela — athugið það, þar stendur „fela“ en ekki „heimila“ ríkisstj. að greiða uppbót á kjöt, ull, og gærur. Verðlagsuppbót á kjöt átti að nema því, að heildarútborgun til bænda jafngilti heildsöluverði innlendu, er þá var óákveðið, en síðar var ákveðið kr. 6,30 ófryst. Að því er verð á ull og gærum snerti, átti að miða við það, að það yrði ekki lægra en 1940 miðað við vísitöluhækkun tveggja ára, sem svarar til almennrar grunnkaupshækkunar við árslok 1942. Verðið, sem framleiðendur fengu 1940, var, auk söluverðs, svonefnd „Breta-uppbót“ landbúnaðarafurða, er nam tæpum 5 millj. kr. Eftir þeim upplýsingum. sem ég hef fengið, nam uppbótin á ull kr. 2,26, en á gærum 83 aurum á kg. Verð á ull v arð þá tæpar 8 kr., en á gærum kr. 3,50 að meðtalinni uppbót. Ofan á þetta verð var svo hv. ríkisstj. falið að bæta (innifalið söluverð) upphæð, sem svarar almennri grunnkaupshækkun og vísitöluhækkun þessara tveggja ára. Ef grunnkaupshækkun er talin 40% og við lögð vísitöluhækkun þessara tveggja ára, þá telst mér svo til, að verð á hverju kg af ull verði um kr. 18,00 eða nánar til tekið kr. 17.65, en verð á hverju kg af gærum kr. 7,50 til 8,00. Hvað mikið er hægt að gera sér vonir um að selja, er mér ekki kunnugt um. En mér telst, að miðað við það söluverð án uppbótar, sem bændur fengu 1940, (ef söluverð hefur ekki breytzt til hækkunar) þá gæti uppbótin bara á ull og gærur numið um 15 millj. króna.

Hvað flutt verður út af kjöti, — um það skal ég ekki dæma. Uppbót á því fer sumpart eftir því, hvað selst á innanlandsmarkaðinum, og í sambandi við það, hvað hægt er að selja setuliðinu. En ef hægt er að selja út —2000 tonn, þá er það geysilegt. Ég vil nú spyrja hv. ríkisstj., hvort hún hefur gert sér grein fyrir því, um hvað mikið fé er hér að ræða. Ég spyr ekki vegna þess, að ég efist um, að hv. ríkisstj. muni standa við þær greiðslur, sem hún ber ábyrgð á, heldur vegna þess, að það er sjálfsagt, þegar rætt er nú um dýrtíðarráðstafanir, að hafa þetta í hyggju og vita, á hvern hátt á að mæta þeirri greiðslu, sem felst í till. frá sumarþinginu.